Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Kosið um sameiningu í tíu sveitarfélögum á næstunni

02.02.2022 - 13:42
Mynd: Ágúst Ólafsson / RÚV
Í febrúar og mars kjósa íbúar í tíu sveitarfélögum um sameiningu þeirra við nágrannasveitarfélög. Verði allar þessar tillögur um sameiningu samþykktar, fá sveitarfélögin samtals um þrjá milljarða króna úr Jöfnunarsjóði.

19. febrúar verður kosið um þrjár tillögur um sameiningu. Það er sameining Húnavatnshrepps og Blönduósbæjar, Akrahrepps og Sveitarfélagsins Skagafjarðar og Snæfellsbæjar og Eyja- og Miklaholtshrepps. 26. mars kjósa svo íbúar Langanesbyggðar og Svalbarðshrepps um sameiningu sem og íbúar í Helgafellssveit og Stykkishólmsbæ.

Sveitarfélög sem vön eru að starfa saman

„Mest eru þetta tillögur þar sem sveitarfélögin eru vön að vinna saman og kannski hægt að lýsa því þannig að þau eru búin að vera í sambúð í þónokkuð mörg ár. Og eru núna kannski að stíga skrefið fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar,“ sagði Róbert Ragnarsson, ráðgjafi hjá RR ráðgjöf, í viðtali á Morgunvaktinni á Rás 1.

Tíminn er naumur

Framboðsfrestur fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 14. maí rennur út 8. apríl. Fyrir þann tíma þarf að vera búið að móta þau nýju sveitarfélög sem þarna verða til og tíminn er naumur. „Við erum alveg á mörkunum að geta kosið 26. mars,“ segir Róbert. „Þannig að það er eiginlega ekkert svigrúm til að klára með þeim í Helgafellssveit og Stykkishólmi og Langanesi og Svalbarðshreppi. En það gengur vegna þess að þau eru í samstarfi um eiginlega allt.“

3 milljarðar úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga

Framlög úr Jöfnunarsjóði verða rúmlega þrír milljarðar króna ef sameining verður alls staðar samþykkt - á bilinu fimm til sjö hundruð milljónir fyrir hverja sameingartillögu. Þetta á meðal annars að jafna skuldastöðu sveitarfélaganna, nýtast við þróun í stjórnsýslu og þjónustu og bæta fyrir neikvæða byggðaþróun.

Fjármagn sem getur breytt miklu

Þegar um er að ræða fámenn svæði segir Róbert að miklu geti munað um þetta fjármagn. „Þá er þetta náttúrulega farið að telja mikið í krónum á hvern íbúa. Og getur í rauninni snúið stöðunni frá því að viðkomandi sveitarfélög hafi ekki mikla fjárfestingargetu, fyrirsjáanlega á næsta kjörtímabili, yfir í að það sé búið að opna alveg fyrir ný tækifæri. Og næsta kjörtímabil gæti þá orðið bara mjög spennandi.“

Hægt er að hlusta á lengra viðtal við Róbert Ragnarsson í spilaranum hér að ofan.