Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Bloody Sunday breytti öllu

Mynd: RÚV / RÚV

Bloody Sunday breytti öllu

02.02.2022 - 13:09

Höfundar

Fimmtíu ár eru nú liðin frá einum afdrifaríkasta atburði The Troubles, óaldarinnar á Norður-Írlandi, sem stóð yfir á árunum 1968-1998. Þann 30. janúar 1972 efndu kaþólikkar til friðsamlegrar mannréttindagöngu í borginni Derry þar sem þeir kröfðust aukinna borgaralegra réttinda og andmæltu nýjum lögum sem höfðu tekið gildi hálfu ári áður og heimiluðu yfirvöldum að fangelsa fólk um óákveðinn tíma, án réttarhalda.

Á sama tíma hafði breski herinn verið sendur til Norður-Írlands til að tryggja frið og kveða niður ólguna sem stigmagnaðist í samfélaginu. Þegar nokkuð var liðið á gönguna hóf herinn hins vegar að skjóta á göngufólk og eftir aðeins nokkrar mínútur af algjörri ringulreið lágu þrettán í valnum. Fimmtán særðust og einn af þeim lést síðar af sárum sínum. Gunnar Hansson og Sólveig Jónsdóttir, stjórnmálafræðingur og rithöfundur, fóru á dögunum til Derry á Norður Írlandi og tóku viðtöl við fólk sem var á staðnum og missti jafnvel fjölskyldumeðlimi í skotárásunum blóðuga sunnudaginn fyrir hálfri öld, 30. janúar 1972.

Bloody Sunday breytti öllu

Í kjölfarið á þessum hræðilega atburði hörðnuðu átökin á Norður-Írlandi gríðarlega og áttu eftir að kosta mörg hundruð mannslíf áður en friðarsamkomulag var loks undirritað árið 1998. Í tveimur útvarpsþáttum á Rás 1 og innslagi í Kastljósinu voru aðdragandi og eftirmál Bloody Sunday rakin og við heyrum lýsingar og frásagnir fólksins sem upplifði daginn sjálfan og eru sum enn þann dag í dag að takast á við afleiðingar hans.    

Eflaust kannast margir við að hafa heyrt fréttir og lýsingar fjölmiðla á átökum og sprengingum á Norður-Írlandi á seinni hluta síðustu aldar. Tal um mótmælendur og kaþólikka og deilur sem virtust nær óendanlega flóknar. Það eru aðeins tæp 24 ár frá því að formlegur friðarsamningur var undirritaður. En friðurinn er brothætt fyrirbæri. Eins og í öllum stríðsátökum áttu ótalmargir og skelfilegir atburðir sér stað á Norður-Írlandi sem skildu eftir hyldjúp sár í samfélaginu sem enn hafa ekki náð með öllu að gróa. Friður og réttlæti haldast ekki endilega í hendur og sumir atburðir sitja svo í þjóðinni að eina von margra er að sársaukinn nái að síast út í gegnum komandi kynslóðir.

Í útvarpsþáttunum var leitast við að útskýra orsök baráttunnar og um hvað átökin á Norður-Írlandi snerust. Þau teygja sig ekki aðeins áratugi aftur í tímann, heldur hefur misskipting og kúgun af hálfu Englendinga litað líf Íra öldum saman, en Írland hafði verið hluti af breska heimsveldinu frá árinu 1536, sem mætti mikilli andstöðu meðal Íra.

Átökin á Norður-Írlandi eru fyrst og fremst pólitískar deilur, sem þó hafa mjög sterka skírskotun til þjóðernislegra þátta og aðskilnaðarstefnu. Þetta voru ekki trúarlegar deilur, nema að afar litlu leyti, nokkuð sem kann að hljóma sérkennilega þar sem hugtökin „kaþólikki“ og „mótmælandi“ hafa verið notuð til að lýsa þessum andstæðu fylkingum.

Sambandssinar og lýðveldissinnar

Annars vegar er um að ræða sambandssinna sem að langstærstum hluta eru mótmælendatrúar. Orðið sambandssinni kemur til af því að þeir vilja viðhalda sambandinu við bresku krúnuna og mega ekki heyra á það minnst að Norður-Írland sameinist Írlandi á nýjan leik. Það hefur aftur á móti verið krafa lýðveldissinna, sem langflestir eru kaþólskrar trúar eins og meirihluti íbúa lýðveldisins Írlands. 

Árið 1916 hafði Írland verið  undir enskum yfirráðum öldum saman. Í takt við tíðarandann í Evrópu hafði írskum þjóðernissinnum vaxið ásmegin um nokkurt skeið og undir lok nítjándu aldar hafði hreyfing sjálfstæðissinna á Írlandi styrkst til mikilla muna.  Krafa þeirra hafði þróast í sambærilega átt og annars staðar í Evrópu, þ.e.a.s. fullveldi, algert sjálfræði og loks sjálfstæði. 

Blóðugt frelsisstríð var háð á árunum 1919-1921 og það var þá sem Írski lýðveldisherinn – ÍRA – varð til. Liðsmenn hans beittu skæruhernaði gegn ofureflinu sem breski herinn var, en með nægilega góðum árangri til þess að árið 1921 ákváðu bresk stjórnvöld að ganga til samninga. Niðurstaðan varð sú að Írland fékk fullveldi í konungssambandi við Bretland. En það var ekki það eina. Á sama tíma varð til annað ríki, Norður-Írland, með sömu réttindi fullvalda ríkis. En á Norður-Írlandi réðu mótmælendur ríkjum. 

Segja má að í kjölfarið hafi bresk stjórnvöld lítið skipt sér af framferði þeirra sem réðu ríkjum í Belfast, höfuðstað Norður-Írlands. Mótmælendur höfðu þar tögl og hagldir og lögðu mikla áherslu á standa vörð um yfirráð sín og hagi og gera jafnframt allt sem í þeirra valdi stóð til að tryggja að kaþólikkar ættu enga möguleika á að sameina Írland í eina heild á ný. Kaþólikkar sættu þar af leiðandi afar mikilli mismunun í samfélaginu á nær öllum sviðum.

Þau gerðu allt sem í þeirra valdi stóð til að láta kaþólikkum líða eins og annars flokks borgurum.

Bridgeen Sharkey, hjúkrunarfræðingur í Derry.

Á þeim tíma voru hermenn alls staðar sem stöðvuðu okkur, yfirheyrðu og leituðu í bílunum okkar. Þetta var mjög erfiður tími. Við höfðum sterkar skoðanir á því hvernig var farið með okkur hér á Norður-Írlandi, mismununinni, lélegu húsnæðinu, atvinnuleysinu og vonleysinu. Margir fundu sig knúna til að láta til sín taka.

Patsy Okane.

The Troubles

Og það er þarna, í atvinnuleysi, fátækt, óréttlæti og mismunun, sem rætur átakanna sem blossuðu upp á Norður-Írlandi á sjöunda áratug síðustu aldar, liggja.

Innblásnir af Martin Luther King og mannréttindabaráttu svartra í Bandaríkjunum á sjöunda áratugnum risu kaþólikkar loks upp og þann 5. október 1968 hafði stór mannréttindaganga kaþólikka verið skipulögð í borginni Derry. En í göngunni skarst lögreglan í leikinn og beitti miklu valdi, barsmíðum og harðræði. Þarna var upphaf að The Troubles, óaldarinnar  sem fáa óraði fyrir að myndi standa yfir næstu þrjá áratugi og kosta meira en 3500 manns lífið.

Mynd með færslu
 Mynd: Rúv

Óeirðir og átök blossuðu reglulega upp víða um Norður-Írland, sífellt meiri harka færðist í aðgerðir lögreglunnar og það sem meira var – írski lýðveldisherinn var aftur kominn fram á sjónarsviðið eftir að hafa legið í dvala í meira en  40 ár. 

Skilin höfðu aldrei verið skarpari á milli mótmælenda og kaþólikka þegar hér var komið til sögu. Því vakti það talsverða athygli og jafnvel enn meiri tortryggni þegar maður úr röðum mótmælenda hóf að berjast ötullega fyrir réttindum kaþólikka. Ivan Cooper var mótmælandi fæddur inn í verkamannafjölskyldu í þorpinu Killaloo. Eiginkona hans, Francis, var kaþólikki. Uppruni, áherslur og barátta Ivans Cooper ollu því að hann átti sér marga óvini.

Pabbi var að fara út í bíl, fyrir utan heima hjá okkur, en mamma kallaði í hann aftur inn, því það var síminn til hans. Þegar hann gekk inn um dyrnar þá sprakk bíllinn hans í loft upp.

Bronagh, dóttir Ivan Cooper

Hermenn voru stöðugt að stöðva bílinn okkar og leita í honum. Við vorum tekin út úr bílnum og látin bíða í vegarkantinum og þeir létu okkur horfa á þegar þeir skáru í sundur sætin á bílnum með hníf.

Sinéad, dóttir Ivan Cooper

Það var Ivan Cooper sem skipulagði og leiddi göngu kaþólikka í Derry í janúarlok 1972, dagurinn sem síðan var kenndur við blóðuga sunnudaginn. James Nesbitt fór með hlutverk  Ivan Cooper í kvikmyndinni Bloody Sunday eftir Paul Greengrass frá árinu 2002.

Blóðugur sunnudagur

Sunnudaginn 30. janúar 1972 er talið að allt að 15.000 manns hafi gengið til að krefjast borgaralegra réttinda og gegn internment-stefnu stjórnvalda í borginni Derry. Það var hugur í fólki og stemningin góð, næstum hátíðleg, þennan bjarta en kalda janúardag.

Það var svo mikil von í loftinu hjá þeim þúsundum sem voru komin saman til að krefjast borgaralegra réttinda. Ég fann ekki fyrir neinni hræðslu, enda bjóst ég ekki við því að neinn væri í hættu.

Ursula Clifford hjúkrunarfræðingur.

Á sama tíma var McDaid-fjölskyldan að búa sig undir að halda í gönguna. Þau voru dæmigerð, samheldin 12 barna kaþólsk fjölskylda í Bogside hverfi Derry. Yngsti sonurinn Kevin, bjó enn heima enda aðeins 15 ára. Næstur honum í systkinaröðinni var Michael, kallaður Mickey, sem var fimm árum eldri.

Michael var dæmigerður Derry-strákur. Við vorum yngstir í stórri fjölskyldu. Átta bræður og fjórar systur. 

Kevin McDaid, bróðir Michaels.

Mynd með færslu
 Mynd: Rúv

Þeir bræður voru afar nánir og unnu meðal annars við að ganga í hús og selja kartöflur fyrir kartöflumanninn. Eftir dæmigerðan sunnudag, messu og góðan hádegismat fóru Kevin og Michael að hitta vini sína og halda af stað með þeim í gönguna.

Para 1

Breskir hermenn í fallhlífaherdeildinni, Para 1, hófu að skjóta á göngufólk skömmu fyrir klukkan fjögur þennan sunnudagseftirmiðdag árið 1972. Algjör skelfing og  ringulreið greip um sig.

Fyrsti ræðumaðurinn var kynntur á svið, þá kvað við mikill hávaði. Það voru skothvellir!

Ursula Clifford.

Fólk fylltist skelfingu. Við hentum okkur í götuna og skriðum í skjól hjá nálægum húsum. Ég gleymi aldrei skothljóðunum. Þessum háu hvellum.

Bridie Gallagher, systir Michaels.

Það komu hermenn út úr brynvörðum bíl og þeir skutu í allar áttir. Mér fannst þeir ekki miða á neitt sérstakt. Jackie Duddy datt í götuna og ég bara hljóp og faldi mig bak við húsvegg. Eftir það kvað við fjöldi skothvella og ég skreið á maganum eftir jörðinni. Ég hugsaði bara um að komast burt. Þetta voru fyrstu skotin sem ég heyrði þennan dag.

Kevin McDaid, bróðir Michaels.

50 ár eru liðin frá blóðuga sunnudeginum.
 Mynd: Rúv
Kevin McDaid t.h. þar sem hann er að skríða í burtu frá skothríðinni. Bak við hann er Patrick Doherty sem var skotinn til bana nokkrum mínútum seinna.

Ég kannaði púlsinn á manninum og það var ekkert lífsmark með honum. Ég hélt líka að hann hefði fengið hjartaáfall, datt ekki í hug að hann hefði verið skotinn. Skotinn á alvörunni.

Ursula Clifford.

Enginn vissi nákvæmlega hvað hafði gerst og fjöldi særðra og látinna var á reiki. Þegar dagurinn var úti höfðu 13 menn verið skotnir til bana og 15 lágu særðir, einn þeirra lést síðar af sárum sínum. Flestir hinna látnu voru um eða undir tvítugu.

Michael McDaid var einn þeirra sem var skotin til bana þennan dag. 

Mynd með færslu
 Mynd: Rúv
Á þessari ljósmynd sést Michael, efst í vinstra horninu, þar sem hann gengur í burtu frá vegatálma hersins á Rossville stræti. Nokkrum sekúndum síðar var hann skotinn til bana.

Svo komu tveir lögregluþjónar og staðfestu að Michael væri dáinn. Hvílíkt áfall. Við vorum algjörlega niðurbrotin. Við grétum alla nóttina. Því Mickey myndi aldrei framar koma til okkar, myndi aldrei aftur leika við syni okkar.

Bridie Gallagher, systir Michaels.

Mynd með færslu
 Mynd: Rúv
Michael McDaid ásamt ungum systursyni sínum, Seamus.

Af hverju gerðuð þið þetta?

Sorgin heltók Derry og Norður-Írland allt og reiðin blossaði upp af krafti, ekki síst vegna vitnisburðar breska hersins um það sem hafði átt sér stað þennan eftirmiðdag.

Það var skotið á okkur úr blokkinni og það var varpað að okkur eldsprengjum og hellt yfir okkur sýru ofan af blokkinni. Beittum við of mikilli hörku? Ef það er skotið á okkur skjótum við til baka, það vita þeir fullkomlega.

Derek Wilford, undirofursti og yfirmaður Para 1.

Ég manaði mig upp og gekk til hermannanna og sagði aftur og aftur við þá: „Af hverju gerðuð þið þetta?” „Af hverju gerðuð þið þetta?!?” Auðvitað svöruðu þeir engu. Þeir voru með hlífar fyrir andlitunum, svo ég sá ekki einu sinni nein svipbrigði .

Ursula Clifford.

Öll 28 sem voru skotin af Para 1 herdeildinni þennan dag voru óvopnaðir, almennir borgarar. Vitni lýstu því hvernig hermennirnir misstu gjörsamlega stjórn á sér og svöruðu grjót- og flöskukasti nokkurra ungmenna á þennan afdrifaríka og grimmilega hátt.

Niðurbrotinn ávarpaði Ivan Cooper blaðamenn um kvöldið:

Við bresku ríkisstjórnina vil ég bara segja þetta. Þið vitið hvað þið hafið gert, er það ekki? Þið hafið tortímt mannréttindahreyfingunni. Og þið hafið veitt ÍRA stærsta sigur sem hann mun nokkurn tíman fá. Í kvöld um borgina alla munu ungir menn...drengir, ganga til liðs við ÍRA og þið munuð uppskera algjöran glundroða.

Og það stóð heima. Í kjölfar Bloody Sunday gekk svo til hver einasti kaþólikki á Norður-Írlandi til liðs við Írska lýðveldisherinn og árið 1972 varð það blóðugasta í sögu átakanna á Norður-Írlandi. 

2. febrúar voru 12 af þeim 13 sem létust bornir til grafar. Mótmæli brutust út um allt Norður-Írland og Belfast logaði í átökum. Minningarathafnir voru haldnar um allt Írland og Norður-Írland, í kaþólskum kirkjum, kirkjum mótmælenda og öðrum bænahúsum. Þennan dag brenndi mannfjöldi breska sendiráðið í Dublin til grunna og sambandið milli Englands og Írlands hafði aldrei verið stirðara. 

Widgery rannsóknin

Tveimur dögum eftir Bloody Sunday skipaði Edward Heath, forsætisráðherra Bretlands, Widgery lávarð til að hefja rannsókn á atburðum dagsins.

Engin gögn á vettvangi studdu frásagnir hermanna um að þeir hefðu setið undir skothríð og sprengjuárásum þar sem engin sönnunargögn fundust um önnur skotvopn en þeirra eigin, eða naglasprengjur á vettvangi.

Niðurstaða Widgery nefndarinnar var kynnt innan við tíu vikum síðar. Þar voru frásagnir breska hersins af atburðarásinni studdar og staðfestar. Meðal sönnunargagna nefndarinnar voru niðurstöður á rannsókn púðuragna á nokkrum hinna látnu, sem geta fundist ef viðkomandi hefur hleypt af byssu.

Nefndin sagði að fundist hefði talsvert magn af púðurögnum á hægri jakkaerminni hjá Michael… hann var örvhentur.

Kevin McDaid, bróðir Michaels.

Hermennirnir sögðu að drengurinn hefði verið með naglasprengju í vösunum. Þeir voru meira að segja með ljósmyndir. Það bara get ég ekki skilið. Þær hefðu aldrei farið framhjá okkur. Við hefðum ekki getað annað en séð þær. Og þar að auki hefðum við auðvitað fjarlægt þær. Við hefðum aldrei sent drenginn á spítalann með naglasprengjur í vösunum.

Ursula Clifford.

Langflestir litu á niðurstöður Widgery-nefndarinnar sem hvítþvott. Rannsóknin og niðurstaða hennar hefði aðeins haft þann tilgang að fría bresk yfirvöld og herinn af ábyrgð á því sem átti sér stað þennan dag. 

Frá því að niðurstöður Widgery-nefndarinnar voru kynntar hafa fjölskyldur þeirra sem létu lífið barist fyrir nýrri rannsókn á atburðum Bloody Sunday.

Óöld

Næstu mánuði eftir Bloody Sunday náði óöldin nýjum hæðum. Hratt og mikið fjölgaði í vopnuðum hópum ungra lýðveldissinna og herskár klofningshópur frá írska lýðveldishernum, Provisional ÍRA, sótti liðsstyrk til ungra, róttækra og vonlítilla kaþólikka.

Á næstu þremur mánuðum sprakk 381 sprengja sem kostaði 56 manns lífið og 27 lögreglumenn voru myrtir. 

Sífellt fleiri herskáir hópar úr röðum mótmælenda spruttu einnig fram og nutu nokkuð víðtæks stuðnings mótmælenda úr verkamannastéttum landsins. Breskir hermenn fóru nú með lögregluvald á götum allra borga Norður-Írlands í samfélagi sem var orðið algjörlega tvískipt.

Sprengjuárásirnar voru ótrúlega margar. Það voru allir alltaf viðbúnir því að það gæti sprungið sprengja hvar og hvenær sem er.

Margaret Armstrong.

Árin liðu og óöldin geisaði enn með ótalmörgum hræðilegum atburðum sem áttu eftir að kosta yfir  3500 mannslíf áður en yfir lauk. Írski lýðveldisherinn og vopnaðir hópar mótmælenda stóðu fyrir mannskæðum sprengjuárásum, skotárásir voru reglulegur viðburður á götum úti, fólk hvarf og fannst aldrei aftur. Þáttaskil urðu í átökunum árið 1981 þegar tíu ungir menn létu lífið í hungurverkfalli í Maze-fangelsinu í Belfast þar sem þeir kröfðust þess að hljóta réttindi pólitískra fanga.

Saville rannsóknin

Fjölskyldur fórnarlambanna gáfust ekki upp og afhentu breskum yfirvöldum 180 blaðsíðna skýrslu með nýjum sönnunargögnum um Bloody Sunday, árið 1997. Í apríl 1998 ákvað eftirmaður Johns Major, Tony Blair, að fela Saville lávarði að taka upp að nýju rannsókn á Bloody Sunday, nokkuð sem lék stórt hlutverk í friðarsamkomulagsferli Norður-Írlands sem var undirritað sama ár.

Fjölskyldur þeirra sem létust á Bloody Sunday tóku höndum saman árið 1992 og stofnuðu samtök sem börðust fyrir réttlæti fyrir ástvini þeirra og að sannleikurinn um atburði dagsins kæmi fram í dagsljósið. 

Þegar vitnaleiðslum Savilles lauk höfðu meira en 900 manns borið vitni; íbúar, hermenn, blaðamenn og stjórnmálamenn, á rúmlega sjö ára tímabili. Saville rannsóknin var því ein sú umfangsmesta og jafnframt sú kostnaðarsamasta í sögu Bretlands, nokkuð sem margir gagnrýndu. En niðurstaðan var afdráttarlaus og gerð opinber í júní 2010 þegar þáverandi forsætisráðherra Bretlands, David Cameron, kynnti þinginu skýrslu Savilles.

Það sem gerðist þennan blóðuga sunnudag var bæði óréttlætanlegt og óafsakanlegt. Það var rangt. Nokkrir meðlimir hersins gengu fram á rangan hátt. Ríkisstjórnin ber á endanum ábyrgð á framferði hersins, því vil ég, fyrir hönd ríkisstjórnarinnar og fyrir hönd landsins okkar biðja innilega afsökunar.

David Cameron, þáverandi forsætisráðherra.

Niðurstaða var skýr. Enginn hermannanna hafði skotið í þeim tilgangi að verja sig. Engar viðvaranir voru gefnar áður en hermennirnir hófu skothríðina og á ákveðnum tímapunkti hafi þeir hætt að gera greinarmun á ungmennum sem köstuðu grjóti og öðrum almennum borgurum. Þá hafi þeir gengið fram með óheyrilegu og óafsakanlegu ofbeldi án nokkurra viðvarana.

Hermennirnir höfðu ekki aðeins skotið saklausa, almenna og óvopnaða borgara til bana, heldur höfðu þeir einnig logið til um atburðina til að fría sig ábyrgð og breiða yfir misgjörðir sínar.

Ættingjar fórnarlamba Bloody Sunday lýstu andúð sinni og reiði yfir þeirri staðreynd að aðeins einn hermaður þætti gjaldgengur til að vera ákærður fyrir hluta morðanna sem framin voru þennan dag. Eftir margar áfrýjanir og hringi í kerfinu var niðurstaðan sú, árið 2020, að enginn annar hermaður yrði ákærður. Í júlí 2021 var úrskurðað að ákæra á hendur hermanni F yrði einnig látin falla niður þar sem dómsvaldinu þótti ótækt að nota hálfrar aldar gamla vitnisburði sem sönnunargögn í málinu.

Brothættur friður

Þrátt fyrir að nærri 24 ár séu frá undirritun friðarsamningsins á Norður-Írlandi og hálf öld sé liðin frá Bloody Sunday, er friðurinn brothætt fyrirbæri. Árin líða og þó minningin um blóðuga sunnudaginn sé enn ljóslifandi í hugum þeirra sem hafa þurft að verja stórum hluta ævinnar í að takast á við afleiðingar hans, er hann orðinn hluti af sögunni.

Með árunum hafa skilin á milli mótmælenda og kaþólikka á Norður-Írlandi almennt dofnað og með aukinni menntun, fræðslu og tækifærum, notar fleira fólk úr báðum fylkingum rödd sína til að koma í veg fyrir að sagan endurtaki sig.

Hægt er að hlusta á báða útvarpsþættina með því að smella hér og horfa á innslagið úr Kastljósinu efst hér í færslunni.