Á sama tíma hafði breski herinn verið sendur til Norður-Írlands til að tryggja frið og kveða niður ólguna sem stigmagnaðist í samfélaginu. Þegar nokkuð var liðið á gönguna hóf herinn hins vegar að skjóta á göngufólk og eftir aðeins nokkrar mínútur af algjörri ringulreið lágu þrettán í valnum. Fimmtán særðust og einn af þeim lést síðar af sárum sínum. Gunnar Hansson og Sólveig Jónsdóttir, stjórnmálafræðingur og rithöfundur, fóru á dögunum til Derry á Norður Írlandi og tóku viðtöl við fólk sem var á staðnum og missti jafnvel fjölskyldumeðlimi í skotárásunum blóðuga sunnudaginn fyrir hálfri öld, 30. janúar 1972.
Bloody Sunday breytti öllu
Í kjölfarið á þessum hræðilega atburði hörðnuðu átökin á Norður-Írlandi gríðarlega og áttu eftir að kosta mörg hundruð mannslíf áður en friðarsamkomulag var loks undirritað árið 1998. Í tveimur útvarpsþáttum á Rás 1 og innslagi í Kastljósinu voru aðdragandi og eftirmál Bloody Sunday rakin og við heyrum lýsingar og frásagnir fólksins sem upplifði daginn sjálfan og eru sum enn þann dag í dag að takast á við afleiðingar hans.
Eflaust kannast margir við að hafa heyrt fréttir og lýsingar fjölmiðla á átökum og sprengingum á Norður-Írlandi á seinni hluta síðustu aldar. Tal um mótmælendur og kaþólikka og deilur sem virtust nær óendanlega flóknar. Það eru aðeins tæp 24 ár frá því að formlegur friðarsamningur var undirritaður. En friðurinn er brothætt fyrirbæri. Eins og í öllum stríðsátökum áttu ótalmargir og skelfilegir atburðir sér stað á Norður-Írlandi sem skildu eftir hyldjúp sár í samfélaginu sem enn hafa ekki náð með öllu að gróa. Friður og réttlæti haldast ekki endilega í hendur og sumir atburðir sitja svo í þjóðinni að eina von margra er að sársaukinn nái að síast út í gegnum komandi kynslóðir.
Í útvarpsþáttunum var leitast við að útskýra orsök baráttunnar og um hvað átökin á Norður-Írlandi snerust. Þau teygja sig ekki aðeins áratugi aftur í tímann, heldur hefur misskipting og kúgun af hálfu Englendinga litað líf Íra öldum saman, en Írland hafði verið hluti af breska heimsveldinu frá árinu 1536, sem mætti mikilli andstöðu meðal Íra.
Átökin á Norður-Írlandi eru fyrst og fremst pólitískar deilur, sem þó hafa mjög sterka skírskotun til þjóðernislegra þátta og aðskilnaðarstefnu. Þetta voru ekki trúarlegar deilur, nema að afar litlu leyti, nokkuð sem kann að hljóma sérkennilega þar sem hugtökin „kaþólikki“ og „mótmælandi“ hafa verið notuð til að lýsa þessum andstæðu fylkingum.
Sambandssinar og lýðveldissinnar
Annars vegar er um að ræða sambandssinna sem að langstærstum hluta eru mótmælendatrúar. Orðið sambandssinni kemur til af því að þeir vilja viðhalda sambandinu við bresku krúnuna og mega ekki heyra á það minnst að Norður-Írland sameinist Írlandi á nýjan leik. Það hefur aftur á móti verið krafa lýðveldissinna, sem langflestir eru kaþólskrar trúar eins og meirihluti íbúa lýðveldisins Írlands.
Árið 1916 hafði Írland verið undir enskum yfirráðum öldum saman. Í takt við tíðarandann í Evrópu hafði írskum þjóðernissinnum vaxið ásmegin um nokkurt skeið og undir lok nítjándu aldar hafði hreyfing sjálfstæðissinna á Írlandi styrkst til mikilla muna. Krafa þeirra hafði þróast í sambærilega átt og annars staðar í Evrópu, þ.e.a.s. fullveldi, algert sjálfræði og loks sjálfstæði.
Blóðugt frelsisstríð var háð á árunum 1919-1921 og það var þá sem Írski lýðveldisherinn – ÍRA – varð til. Liðsmenn hans beittu skæruhernaði gegn ofureflinu sem breski herinn var, en með nægilega góðum árangri til þess að árið 1921 ákváðu bresk stjórnvöld að ganga til samninga. Niðurstaðan varð sú að Írland fékk fullveldi í konungssambandi við Bretland. En það var ekki það eina. Á sama tíma varð til annað ríki, Norður-Írland, með sömu réttindi fullvalda ríkis. En á Norður-Írlandi réðu mótmælendur ríkjum.
Segja má að í kjölfarið hafi bresk stjórnvöld lítið skipt sér af framferði þeirra sem réðu ríkjum í Belfast, höfuðstað Norður-Írlands. Mótmælendur höfðu þar tögl og hagldir og lögðu mikla áherslu á standa vörð um yfirráð sín og hagi og gera jafnframt allt sem í þeirra valdi stóð til að tryggja að kaþólikkar ættu enga möguleika á að sameina Írland í eina heild á ný. Kaþólikkar sættu þar af leiðandi afar mikilli mismunun í samfélaginu á nær öllum sviðum.
Þau gerðu allt sem í þeirra valdi stóð til að láta kaþólikkum líða eins og annars flokks borgurum.
Bridgeen Sharkey, hjúkrunarfræðingur í Derry.
Á þeim tíma voru hermenn alls staðar sem stöðvuðu okkur, yfirheyrðu og leituðu í bílunum okkar. Þetta var mjög erfiður tími. Við höfðum sterkar skoðanir á því hvernig var farið með okkur hér á Norður-Írlandi, mismununinni, lélegu húsnæðinu, atvinnuleysinu og vonleysinu. Margir fundu sig knúna til að láta til sín taka.
Patsy Okane.
The Troubles
Og það er þarna, í atvinnuleysi, fátækt, óréttlæti og mismunun, sem rætur átakanna sem blossuðu upp á Norður-Írlandi á sjöunda áratug síðustu aldar, liggja.
Innblásnir af Martin Luther King og mannréttindabaráttu svartra í Bandaríkjunum á sjöunda áratugnum risu kaþólikkar loks upp og þann 5. október 1968 hafði stór mannréttindaganga kaþólikka verið skipulögð í borginni Derry. En í göngunni skarst lögreglan í leikinn og beitti miklu valdi, barsmíðum og harðræði. Þarna var upphaf að The Troubles, óaldarinnar sem fáa óraði fyrir að myndi standa yfir næstu þrjá áratugi og kosta meira en 3500 manns lífið.