Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Sjötta dauðsfallið af völdum COVID-19 á Grænlandi

Götumyndir frá höfuðstað Grænlands Nuuk, snjór á götum
 Mynd: Danmarks Radio
Sjúklingur á efri árum lést um helgina af völdum COVID-19 á sjúkrahúsi í Nuuk, höfuðstað Grænlands. Því hafa sex látist af völdum sjúkdómsins þar frá því faraldurinn skall á. Strangar samkomutakmarkanir gilda í landinu.

Frá því á föstudaginn var hafa níu þurft að leggjast inn á sjúkrahús með kórónuveirusmit en smit var meginástæða innlagnar fjögurra þeirra.

Enn liggja tvö börn á gjörgæsludeild með alvarleg sjúkdómseinkenni að því er fram kemur í frétt grænlenska ríkisútvarpsins.

Um helgina greindust 180 ný smit en 310 mættu í sýnatöku. Grænlendingum ber að framvísa bólusetningarvottorði hyggist þeir til að mynda heimsækja veitingastaði, öldurhús, söfn og kvikmyndahús.

Grímuskylda er innandyra þar sem margir koma saman, meðal annars í verslunum, bókasöfnum og veitingastöðum og eins í almenningsfarartækjum.

Óbólusettum yfir fimmtán ára er óheimilt að sækja fjölmenna staði þeirra á meðal kvikmyndahús og veitingahús en þurfa að sýna fram á smitleysi til að fá aðgang að verslunum og strætisvögnum.

Áfengissölubann er í gildi þar til í dag eða til 9. febrúar fyrir fjögur af fimm sveitarfélögum Grænlands.