Athugið þessi frétt er meira en 6 mánaða gömul.

Orban og Pútín ræða viðskipti og orkumál

epa09715062 Hungary's Prime Minister, Viktor Orban (C), is received by Spanish Vox leader, Santiago Abascal (R), before a meeting of nationalist and far-right leaders organized by Spanish far-right party Vox in downtown Madrid, Spain, 28 January 2022.  EPA-EFE/David Fernández
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Viktor Orban, forsætisráðherra Ungverjalands heldur til fundar við Vladímir Pútín Rússlandsforseta á morgun. Ætlunin er að ræða viðskipti og orkumál auk þess sem öryggismál í Evrópu eru á dagskránni.

Ungverjar hafa ekki tekið jafn harða afstöðu í Úkraínudeilunni og Atlantshafsbandalagið og Evrópusambandið en eiga þó aðild að hvorum tveggja. Hluti landamæra Ungverjalands liggur að Úkraínu.

Orban hefur sagst ætla að tryggja samkomulag um gasflutning frá Rússlandi. Stjórnarandstöðuflokkar í Ungverjalandi hvöttu Orban til að fresta för sinni því það væri í andstöðu við hagsmuni Ungverjalands nú að hitta Pútín. 

Í sameiginlegri yfirlýsingu flokkanna segir að með heimsókninni verði Orban til þess að hvetja Rússlandsforseta óbeint til innrásar í Úkraínu. Líklegt þykir einnig að heimsóknin styggi Pólverja en Mateusz Morawiecki forsætisráðherra á fund með Volodymyr Zelensky Úkraínuforseta sama dag. 

Pólverjar hafa löngum gagnrýnt samskipti Orbans við Pútín þótt ráðamenn landanna séu sama sinnis í ýmsum öðrum málum. Orban kveðst vilja frið á svæðinu og að dregið verði úr þenslunni sem skapast hefur vegna stöðunnar við landamæri Rússlands og Úkraínu. 

Peter Szijjarto utanríkisráðherra Ungverjalands segir að samningaviðræður standi yfir við Bandaríkin um móttöku hermanna þaðan en það væru falsfréttir að fjöldi þeirra gæti numið allt að einu þúsundi. 

Áður hefur hann lýst því yfir að Ungverjar sé dyggir aðilar Atlantshafsbandalagsins en að þeir hafi ekki nokkurn áhuga á nýju köldu stríði.