Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Gert að eyða fréttum um spillingarrannsóknir Navalny

epa09025237 Russian opposition leader Alexei Navalny gestures inside a glass cage prior to a hearing at the Babushkinsky District Court in Moscow, Russia, 20 February 2021. The Moscow City court will hold a visiting session at the Babushkinsky District Court Building to consider Navalny's lawyers appeal against a court verdict issued on 02 February 2021, to replace the suspended sentence issued to Navalny in the Yves Rocher embezzlement case with an actual term in a penal colony.  EPA-EFE/YURI KOCHETKOV MANDATORY CREDIT
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Tíu rússneskum fjölmiðlum, hið minnsta, hefur verið gert að fjarlægja allt efni um spillingu ráðamanna í Rússlandi sem skrifað er af stjórnarandstæðingnum Alexei Navalny og samherjum hans. Verði þeir ekki við því getur þeirra beðið há sekt. 

Greint var frá því í nokkrum rússneskum fjölmiðlum í einkaeigu í dag að þangað hefðu borist skipanir frá yfirvöldum um að fjarlægja allar fréttir af rannsóknum stjórnarandstæðingsins Alexei Navalny á spillingarmálum. Hann hefur, ásamt samstarfsfólki, sínu gert nokkrar heimildamyndir um málefnið. Í janúar gaf hann út mynd á YouTube um höll sem sögð var byggð af auðmönnum fyrir Vladimír Pútín, forseta Rússlands. Hún naut mikilla vinsælda og var horft á hana 120 milljón sinnum. 

Óttast að vefsíðum verði lokað

Síðustu misseri hafa yfirvöld með ýmsum leiðum reynt að kæfa fjölmiðlaumfjöllun sem þeim er ekki að skapi. Meðal þeirra fjölmiðla sem fengu skipunina í dag eru sjónvarpsstöðin Dost, fréttavefurinn Meduza og útgáfa The Moscow Times á rússnesku. Þeirra getur beðið sekt sem jafngildir rúmum þrettán milljónum íslenskra króna verði þeir ekki við kröfum stjórnvalda. The Moscow Times greinir frá að fjölmiðlarnir neyðist til að verða við kröfunum, annars eigi þeir á hættu að vefsíðum þeirra verði lokað. 

Navalny skilgreindur sem ofstækismaður

AFP fréttaveitan hefur eftir Roskomnadzor, fjölmiðlaeftirliti Rússlands, að þessi krafa hafi verið gerð til fjölmiðla að beiðni saksóknara. Fjölmiðlarnir væru að dreifa efni frá ofstækismönnum. Samtök Navalny hafa verið leyst upp í Rússlandi og Navalny sjálfur og nánustu samstarfsmenn hans eru skilgreindir sem ofstækis- og hryðjuverkamenn af hinu opinbera. Navalny situr enn inni eftir að hann var tekinn höndum við komuna til Rússlands í janúar í fyrra. Hann hafði dvalið í Þýskalandi að jafna sig eftir að eitrað var fyrir honum á ferðalagi í Síberíu.