Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Amnesty sakar Ísraelsmenn um aðskilnaðarstefnu

A Palestinian boy sits looking at others inspecting the damage of their shops following Israeli airstrikes on Jabaliya refugee camp, northern Gaza Strip, Thursday, May 20, 2021. Heavy airstrikes pummeled a street in the Jabaliya refugee camp in northern Gaza, destroying ramshackle homes with corrugated metal roofs nearby. The military said it struck two underground launchers in the camp used to fire rockets at Tel Aviv. (AP Photo/Khalil Hamra)
 Mynd: AP
Mannréttindasamtök kalla eftir því að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna setji á vopnasölubann til Ísraels. Þá hvetja samtökin til markviss viðskiptabanns á ísraelska valdhafa sem beri ábyrgð á dauða þúsunda palestínskra borgara. Ísraelsmenn eru sakaðir um að halda úti aðskilnaðarstefnu á Palestínumenn .

Í skýrslu Amnesty International segir að ríkisstjórnir Ísraels hafi litið á Palestínumenn sem ógn og beitt þá kerfisbundinni kúgun, jafnt í Ísrael og á hernumdum svæðum Palestínu. Þetta eigi einnig við um flóttafólk af palestínskum uppruna í öðrum löndum. 

„Niðurstaða okkar er sú að grimmileg stefna um aðskilnað, eignasviptingu og útilokun á öllum landsvæðum undir stjórn Ísraels jafngildi aðskilnaðarstefnu. Alþjóðasamfélaginu ber skylda til að bregðast við,“ segir Agnès Callamard, aðalframkvæmdastjóri Amnesty International.

Meðal þess sem talið er upp eru landtökur og eignarnám, synjun ríkisfangs eða ríkisborgararéttar og ólögmæt dráp.

Því haldi ísraelsk stjórnvöld uppi aðskilnaðarstefnu sem sé ólögleg samkvæmt Rómarsamþykktinni og alþjóðasamningi um aðskilnaðarstefnu. Eins komi ísraelsk stjórnvöld fram við palestínskt fólk sem óæðri kynþátt. 

Öll ríki eru hvött til að draga þá sem ábyrgð beri fyrir dóm og að Alþjóðlegi sakamáladómstóllinn horfi til þess í rannsókn á hernumdu svæðunum að þar sé framinn glæpur í formi aðskilnaðarstefnu.

„Aðskilnaðarstefna á hvergi rétt á sér í heiminum og ríki sem velja að styðja Ísraelsríki með vopnum og vernda það fyrir því að sæta ábyrgð á vettvangi Sameinuðu þjóðanna styðja við aðskilnaðarstefnu, grafa undan alþjóðlega réttarkerfinu og auka á þjáningu palestínsku þjóðarinnar,“ segir Callamard.

Eins er hvatt til þess að öryggisráð Sameinuðu þjóðanna banni sölu á vopnum til Ísraels, þar á meðal búnað til löggæslu. Sú krafa sé til komin vegna ólögmætra drápa á Palestínumönnum.

Amnesty setur sig ekki upp á móti því að Ísrael sé skilgreint sem land fyrir gyðinga en hvetur þarlend stjórnvöld til að afnema aðskilnaðarstefnuna og binda þannig enda á kúgun og mismunun.

„Ísrael verður að brjóta á bak aftur aðskilnaðarstefnu sína og byrja að koma fram við palestínskt fólk sem manneskjur með jöfn réttindi og af sömu virðingu. Á meðan svo er ekki eru friður og öryggi fjarlæg sýn fyrir Ísraela og Palestínubúa,“ segir Agnès Callamard, aðalframkvæmdastjóri Amnesty International.