Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Ekkert bendir til að dragi úr verðhækkunum á næstunni

Þrjár konur við brunch
 Mynd: Stocksnap.io
Framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu segir ekkert benda til þess að það dragi úr verðhækkunum næstu mánuði. Hrávöruverð á heimsmörkuðum sé í sögulegu hámarki. Seðlabankinn eigi engin tól gegn því.

Heimsmarkaðsverð á hrávöru, hvaða nafni sem hún nefnist, hefur hækkað fordæmalaust á einu og hálfu ári  segir Andrés Magnússon framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu. Þar sé skýringa að leita á hækkun vöruverðs.
Verðbólgudraugurinn hafi vaknað á ólíklegustu stöðum, jafnvel í Þýskalandi sem þekkt sé fyrir flest annað en verðbólgutölur. Hann segir samtökin margsinnis hafa bent á hvað væri í aðsigi og nú komi verðbólgan í andlitið á okkur.

„Við höfum ekki séð svona hækkanir á friðartímum, það er bara þannig. Allir indexar, allar vísitölur, allar hrávöruvísitölur staðfesta það. Það getur engum dottið það í hug að fyrirtæki, hvort sem þau eru stór eða smá, hvaða nafni sem þau nefnast, geti tekið þetta á sig. Það er skrifað í skýin að þegar svona miklar hækkanir verða á innkaupsverði þá hefur það áhrif á verðlag, það er ekkert nýtt undir sólinni í þeim efnum."

Andrés segir verðbólgu og hækkun vöruverðs verkefni sem fyrirtæki, atvinnurekendur, launþegahreyfingin og stjórnvöld verði að ráða fram úr. Ástandið sé einstaklega óheppilegt þar sem kjarasamningar séu í aðsigi.

Þótt rætt hafi verið um að hækkanir ytra hafi aðeins tímabundnar afleiðingar á innanlandsmarkaði, segir Andrés engin merki um að dragi úr hækkunum næsta kastið. Það verði ekki fyrr en um mitt árið í fyrsta lagi.

„Stjórnvöld hljóta að hafa áhyggjur af þessu. Við hljótum að vekja athygli á því að stjórnvöld eru þegar búin að koma til móts við bændur, vegna þess að áburðarverð er að tvöfaldast, að því er virðist og eru búin að styrkja bændur um 700 milljónir. Það verður fróðlegt að fylgjast með því hvort stjórnvöld hyggist ekki koma á sama hátt til móts við allan almenning sem verður fyrir barðinu á þessu óhjákvæmilega."

„Eru fyrirtæki í þínum samtökum að taka of mikið til sín?" „Við metum það ekki. Það er bara hluthafafundanna að ákveða hvort það er borð fyrir báru að greiða út arð. Við sem hagsmunasamtök höfum ekki skoðun á því."

Andrés segir núverandi stöðu efnahagsmála óþægilega í alla staði.
„Það sem er nýtt í þessu líka er að þessi verðbólga er innflutt. Þetta er ástand sem við höfum ekkert stjórn á hérna og Seðlabankinn hefur engin tól og tæki í vopnabúri sínu til að bregðast við. Þannig að því leyti er þetta alveg nýtt, að kljást við það sem við köllum innflutta verðbólgu."

 

 

Ólöf Rún Skúladóttir
Fréttastofa RÚV