
Njósnað um finnska diplómata með óværunni Pegasusi
Viðskiptavinir ísraelska fyrirtækisins NSO hafa frá árinu 2016 getað njósnað um aðgerðarsinna, blaðamenn og stjórnmálamenn með því að nota forritið. Gögn um óværuna láku síðastliðið sumar frá NSO sem hannaði hana.
Fjöldi fjölmiðla fjallaði um lekann og ljóstraði upp að tugir þúsunda símanúmera hafi verið þar að finna.
Í frétt norska ríkisútvarpsins af finnska njósnamálinu er haft eftir Matti Parviainen yfirmanni öryggismála í utanríkisráðuneyti Finnlands að verkfæri til njósna hafi fundist í símum starfsmanna.
Ekki kemur fram hvert umfang njósnanna kann að hafa verið né hve lengi það hafi staðið yfir. NSO heitir Finnum fullri samvinnu við lausn málsins.
Þeir sem nota Pegasus til njósna komast inn í Android og Iphone síma og nálgast þannig skilaboð, myndir og tölvupóst, geta tekið upp símtöl og virkjað leynilegan hljóðnema.