Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Gasleiðsla notuð til að þrýsta á Rússa

29.01.2022 - 19:21
Vesturveldin hóta að hætta við að kaupa gas frá Rússlandi um leiðslu sem nýbúið er að leggja, fari svo að Rússar ráðist í Úkraínu. Verði af því, hefur það hins vegar í för með sér erfiðleika fyrir ýmis lönd Evrópu, sérstaklega Þýskaland.

Það hafa margir sagt - og sumir oft - að það hafi alvarlegar afleiðingar fyrir Rússa að ráðast í Úrkaínu. Hvað nákvæmlega verður gert hefur hins vegar ekki verið skýrt í smáatriðum. En einu atriði hefur þó verið haldið á lofti. Það er gasleiðslan Nord Stream 2.

Nord Stream er gasleiðsla sem liggur frá Vestur-Síberíu í Rússlandi til Þýskalands yfir Eystrasaltið. Nordstream 2 er önnur 1.200 kílómetra leiðsla sem Þjóðverjar hafa lagt samhliða henni. Bæði Austur-Evrópuþjóðir og Bandaríkin hafa gagnrýnt þetta þar sem leiðslan auki áhrif Rússlands í Evrópu. 

Með þessu þurfa Rússar ekki að dæla eins miklu gasi um leiðslur sem liggja um önnur lönd, til dæmis Úkraínu. Því er leiðslan efnahagslega mikilvæg fyrir þá.

Ekkert gas hefur farið um leiðsluna enn þá þó að hún hafi verið tilbúin síðan í september og nú vofir sú hótun yfir að það gerist ekki, ráðist Rússar inn í Úkraínu. Victoria Nulda varautanríkisráðherra Bandaríkjanna sagði til dæmis á blaðamannafundi í gær: „Ég vil tala alveg skýrt í dag: Ef Rússar ráðast inn í Úkraínu verður ekki haldið áfram með Nord Stream 2.“

Þetta er samt ekki einfalt mál. Þjóðverjar eru háðir gasi til kyndingar á húsum, og 40% af gasi sem notað er í Evrópu kemur frá Rússlandi. skortur á gasi hefur hækkað verð á því og því myndi þessi leiðsla bæði slá á eftirspurn og lækka verð. 

Að auki yrði enginn hægðarleikur að fá gas í staðinn fyrir það sem kemur frá Rússlandi. Bandaríkjamenn eru í viðræðum um að tryggja gas í vökvaformi til að flytja í tönkum ef þörf er á, en slíkt yrði mun þyngra í vöfum. Það er því ljóst að ef þessu úrræði verður beitt gegn Rússum, setur það Þýskaland og jafnvel fleiri Evrópulönd í vandræði.

 

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV