Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

1.186 innanlandssmit í gær og 17 á landamærunum

Mynd með færslu
 Mynd: Ólöf Rún Erlendsdóttir - RÚV
Í gær greindust 1.186 með kórónuveiruna innanlands, sem er svipaður fjöldi og í fyrradag. Þar af voru 531 í sóttkví við greiningu. Sautján til viðbótar greindust við landamærin.

Líkt og venjan er um helgar eru þetta bráðabirgðatölur og fást frekari upplýsingar um fjölda í einangrun og fjölda sýna sem tekinn var, á mánudag.

Farsóttarnefnd Landspítala býr sig undir aukinn fjölda smita

Landspítali er enn á neyðarstigi og hefur farsóttarnefnd spítalans gefið út flæðirit yfir þær aðgerðir sem grípa þarf til gagnvart útsettum starfsmönnum, nemum og verktökum. Með flæðiritinu er þessum hópum gert skýrt hvenær þeim sé skylt að sæta smitgát eða sóttkví, ýmist vinnusóttkví eða án þess að mæta til vinnu. Þá ítrekar farsóttarnefnd fyrir starfsfólki að verði að vernda inniliggjandi sjúklinga með öllum ráðum.

„Viðbúið er að fjölmargir þeirra sem til spítalans leita vegna annarra vandamála séu COVID smitaðir. Þetta mun valda auknu álagi á legudeildir, göngudeildir, bráðamóttökur og rannsóknardeildir“ segir í tilkynningu farsóttarnefndar til starfsfólks.

Gera ekki ráð fyrir fjölgun á gjörgæslu

Farsóttarnefnd býst ekki við mörgum gjörgæsluinnlögnum vegna COVID, þrátt fyrir þennan aukna fjölda smita sem gæti orðið á næstu dögum eða vikum. Þá segir þó að vitanlega geti þeir sem þurfa gjörgæslu vegna annarra vandamála einnig verið smitaðir.

Í gær láu 35 sjúklingar inni á Landspítala með covid smit, þar af voru 27 í einangrun með virkt smit. Á gjörgæslu voru þrír, tveir í öndunarvél og annar þeirra í hjarta- og lungnavél. Farsóttarnefnd hefur ekki uppfært fjölda sem liggur inni með covid í dag.