Héraðsdómur Suðurlands hefur dæmt mann í sex mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir skattalagabrot og peningaþvætti í rekstri einkahlutafélags, sem hann stýrði.
Maðurinn var fundinn sekur um að hafa ekki staðið skil á staðgreiðslu opinberra gjalda að fjárhæð tæpra 30 milljóna, á 13 mánaða tímabili frá í desember 2018 til janúar 2020.
Maðurinn viðurkenndi brot sín skýlaust fyrir dómi og óskaði ekki eftir verjanda.
Hann var dæmdur í sex mánaða fangelsi, en í dómsorði segir rétt að skilorðsbinda þann dóm, meðal annars að teknu tilliti til játningar. Þá skal hann greiða 60 milljónir króna – ríflega tvöfalda fjárhæð skattaundanskotanna – í ríkissjóð.