
Öryggishagsmunir Rússa að engu hafðir
Í yfirlýsingu sem stjórnvöld í Kreml sendu frá sér eftir viðræður leiðtoganna kemur fram að Pútín hafi kvartað yfir því að Bandaríkin og NATO gefi engan gaum að áhyggjum Rússa á öryggissviðinu, svo sem stækkun bandalagsins og því að árásarvopnum hafi verið komið fyrir nálægt rússnesku landamærunum.
Rússar lögðu á dögunum fram kröfur til Bandaríkjastjórnar um ákveðnar öryggistryggingar í Evrópu, þar á meðal að Úkraína fengi aldrei aðild að NATO. Pútín sagði að í skriflegu svari Bandaríkjanna hefði vantað veigamikil atriði sem Rússar vildu fá viðbrögð við. Eigi að síður ætlaði hann að skoða svör Bandaríkjastjórnar vandlega áður en hann tæki ákvörðun um næstu skref.
Emmanuel Macron hefur ekkert látið frá sér fara um símtalið við Pútín í dag. Fréttamönnum í París hefur verið sagt að yfirlýsingar sé að vænta.
Þrátt fyrir að fjölmennt lið rússneska hersins hafi komið sér fyrir við úkraínsku landamærin undanfarnar vikur neita stjórnvöld í Kreml því jafnan að þau hyggi á innrás. Joe Biden Bandaríkjaforseti sagði í dag í símtali við Volodymyr Zelensky, forseta Úkraínu að innrás yrði mögulega gerð í febrúar.