Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Alsír í kreppu og ungt fólk flýr land

28.01.2022 - 07:37
Fagnað var í Algeirsborg þegar forsetinn dró framboð sitt til baka. - Mynd:  / 
Knattspyrnulið Alsírs í Afríkumóti karla í fótbolta féll úr keppni fyrir síðustu helgi. Það komst ekki upp úr sínum riðli og leikmenn eru farnir heim. Þetta er áfall fyrir land og þjóð því Alsír er handhafi Afríkumeistartitilsins. Liðið varð Afríkumeistari árið 2019 þegar þjóðin var full af bjartsýni um betri tíð.

Táknrænt fyrir mótlætið

Nú þremur árum síðar er pólitískt og efnahagslegt ástand í landinu slæmt. Þær vonir sem margir ólu í brjósti eftir fjöldamótmæli Hirakhreyfingarinnar árið 2019 og varð til þess að Abdelaziz Bouteflika forseti hrökklaðist frá völdum hafa dvínað verulega. Gengi Afríkumeistaranna í Alsír á yfirstandandi Afríkumóti er kannski táknrænt fyrir það mótlæti sem almenningur í Alsír hefur fundið fyrir síðastliðin tvö ár. 

Í skjóli hersins

Bouteflika forseti og stjórn hans var við völd í 20 ár. Hann var endurkjörinn í þrígang en stjórn hans þótti ætíð spillt og sat í skjóli hersins. Þegar arabíska vorið svokallaða hófst 2010 með mótmælum og kröfum um lýðræðisumbætur í Mið-Austurlöndum og Norðanverðri Afríku tókst Bouteflika með pólitískum klækjum að halda völdum með því að aflétta neyðarlögum sem giltu í landinu.

Fjöldamótmæli og óánægjualda

Bouteflika fékk alvarlegt heilablóðfall 2013 en bauð sig engu að síður fram til endurkjörs ári seinna og hafði sigur með rúmlega 80% atkvæða. Efasemdir voru hins vegar sterkar um að hann væri óhæfur sökum heilsubrests og að aðrir en hann stjórnuðu landinu bak við tjöldin. Þegar hann tilkynnti um framboð  enn á ný árið 2019 braust út alda óánægju og fjöldamótmæli voru skipulögð undir nafninu Hirak.  

Vonir vakna en ekkert breytist

Bouteflika hætti við framboð og stjórn hans hrökklaðist frá. Abdelmadjid Tebboune, sem sagðist vera fulltrúi fjöldahreyfingarinnar og hins nýja Alsírs, tók við og vonir vöknuðu um betri tíð. Yfirmenn alsírska hersins eru pólitískir refir og tækifærissinnar. Þeir skynjuðu að dagar Bouteflika voru taldir og fylktu sér að baki Tebboune. Síðan eru liðin þrjú ár og óhætt að segja að vonbrigði þeirra Alsíringa sem bjuggust við lýðræðisumbótum, betri efnahag og siðbót í stjórnkerfi landsins séu mikil. Ekkert hefur breyst. 

Þúsundir ungra Alsíringa flýja land

Þýski miðillinn Spiegel fjallaði um ástandið í Alsír fyrir skömmu og ræddi meðal annars við Wafi Tigrine, 33 ára Alsíring, sem tók þann kost að flýja land í október á síðasta ári. Og hann var ekki einn um það. Alþjóðastofnun um fólksflutninga, sem er deild innan Sameinuðu þjóðanna, áætlar að 12 þúsund  Alsíringar hafi flúið land á síðasta ári, mest ungt fólk. Það flýr af bæði efnahagslegum og pólitískum ástæðum.

Umbæturnar létu á sér standa

Atvinnuleysi er mikið í Alsír og efnhagurinn hefur farið hríðversnandi, einkum vegna þess að olíuauðlindir gefa ekki eins mikið af sér og áður. Þá hefur Covid faraldurinn ekki bætt ástandið. Wafi Tigine tók þátt í Hirakhreyfingunni og hélt áfram að leggja henni lið eftir valdaskiptin með gagnrýnum skrifum á stjórnvöld á samfélagsmiðla. En umbæturnar létu á sér standa og það rann upp fyrir Tigine að ekkert hafði breyst. Stjórnarfarið var eins, herinn; þessi sýnilega og ósýnilega ógn út um allt og spillingin grasseraði.

90 fangar - eitt klósett

Tigrine var handtekinn haustið 2019 fyrir skrif sem „gætu skaðað hag þjóðarinnar" eins og sagði í ákærunni. Hann sati inni í fjóra mánuði við skelfilegar aðstæður þar sem 90 fangar deildu einu klósetti. Í kjölfarið missti hann vinnuna á markaðsdeild rikisfyrirtækis. Í haust fékk hann upplýsingar um að til stæði að handtaka hann á ný fyrir aðild að hryðjuverkasamtökum sem hefði þýtt margra ára fangelsi.

Flúði og borgaði fúlgur fjár

Hann sá þá ekki annað ráð í stöðunni en að flýja. Og hann gerði það sama og þúsundir ungra samlanda hans. Hann hafði samband við menn sem taka að sér að smygla fólki úr landi fyrir offjár. Hann fór ásamt ellefu öðrum á litlum mótorbát yfir Miðjarðarhafið og borgaði 4.250 evrur fyrir, 620 þúsund krónur. Tigrine er sannfærður um að hluti þeirrar upphæðar hafi farið beint í vasa einhvers í löggæslunni. Eftir í Alsír urðu systir hans og foreldrar. Hann býr nú í París og hefur sótt um hæli sem pólitískur flóttamaður í Frakklandi. 

Landið ekki tilbúið í róttækar breytingar

Spiegel ræðir einnig algírska rithöfundinn Adlène Meddi. Hann segir að ein ástæða þess að Hirak fjöldahreyfingin hafi fjarað út og ekki náð að fylgja eftir árangri sínum sé sú að hún flaskaði á að skipuleggja sig. Það dugi ekki að hvetja til byltingar eða breytinga með slagorðum á Facebook og öðrum samfélagsmiðlum, en spá svo lítið í framhaldið.

Meddi segir að Alsír sé ekki tilbúið í róttækar breytingar strax, borgaralegt samfélag sé of veikt, landið of stórt og stjórnkerfið of miðstýrt. Hann segir að væntingarnar hafi verið miklar eftir Hirak fjöldamótmælin, en breytingarnar gerist ekki svo hratt. 

Vonin felst í unga fólkinu

Þriðji viðmælandi Spiegel er lögfræðingurinn Aouicha Bekhti. Hún hefur tekið að sér mál margra pólitískra fanga í Alsír. Hún elur þó enn von í brjósti um framtíð landsins. Fangelsin séu full af fólki sem eigi ekki að vera þar. Það skorti lýðræðishefð og pólitískan kúltúr í landinu, en það sé ekki sök þeirra sem sitji inni fyrir skoðanir sínar.  Hún byggir von sína á þessu fólki og þeirra þúsunda sem tóku þátt í Hirak hreyfingunni. Flest þeirra séu enn til staðar og þeirra sé framtíðin. 
 

 

kristjas's picture
Kristján Sigurjónsson
Fréttastofa RÚV