Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Geta ekki neitað Úkraínu um NATÓ-aðild

27.01.2022 - 13:57
epa09699791 US Secretary of State Antony Blinken speaks during a press conference following bilateral talks with Russian Foreign Minister Sergei Lavrov on soaring tensions over Ukraine, in Geneva, Switzerland, 21 January 2022.  EPA-EFE/MARTIAL TREZZINI
Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Mynd: EPA-EFE - Keystone
Bandaríkjastjórn hefur svarað formlega kröfum Rússa um öryggistryggingar í Evrópu, þar á meðal að Úkraína fái aldrei aðild að Atlantshafsbandalaginu. Þar kemur fram að það sé ekki Bandaríkjanna að ákveða neitt slíkt heldur allra aðildarríkjanna sameiginlega. Talsmaður rússnesku stjórnarinnar segir að verið sé að fara yfir svör Bandaríkjastjórnar.

Svör Bandaríkjastjórnar eru bundin trúnaði, en Antony Blinken sagði á fundi með fréttamönnum að afstaða Bandaríkjamanna væri hin sama og áður, að Atlantshafsbandalagið - NATÓ - væri opið fyrir því að fjölga aðildarþjóðunum og yrði það hér eftir sem hingað til.

Blinken bætti því við að nú væri boltinn hjá Rússum. Í bréfi Bandaríkjastjórnar hefði þeim verið gefið tækifæri til að losa sig út úr Úkraínudeilunni og nú væri að bíða og sjá. „Hvort sem þeir velja viðræður eða að halda áfram yfirgangi við Úkraínumenn erum við viðbúnir,“ sagði ráðherrann.

Talsmaður rússnesku stjórnarinnar sagði í dag að í bréfi Bandaríkjastjórnar hefði ekki verið að finna nein svör við sjónarmiðum Rússa, en verið væri að fara yfir það í Kreml. Engra viðbragða væri að vænta fyrr en því væri lokið.

Sendinefndir Rússa og Úkraínumanna sammæltust um það á fundi í París í gær að endurnýja vopnahlé milli úkraínska stjórnarhersins og herskárra aðskilnaðarsinna í austurhéruðum landsins. Viðræðum verður fram haldið í næsta mánuði.