Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

„Þú kvartar ekki undan þreytu“

Mynd: EPA-EFE / MTI

„Þú kvartar ekki undan þreytu“

26.01.2022 - 07:00
Ýmir Örn Gíslason segist ekki ætla að kvarta undan þreytu í skrokknum þegar hann spilar fyrir landsliðið. Hann segir íslenska liðið bara hugsa um að vinna Svartfjallaland í dag, ef eitthvað gott gerist í öðrum leikjum er það bara bónus.

 

Það hefur mikið mætt á Ými á þessu móti. Hann er fastamaður í íslensku vörninni og bregður sér reglulega í sókn líka.

„Þú kvartar ekki undan þreytu þegar þú spilar fyrir landsliðið, það er bara þannig. Þegar þú klæðist treyjunni er bara áfram gakk,“ segir Ýmir Örn.

Hann segir eitt og annað mega læra af leiknum gegn Króatíu í fyrradag.

„Það sem við tökum mest út úr þessu er að gefast aldrei upp. Við höfum reyndar aldrei gert það en það var flott hjá okkur að koma tilbaka eftir að vera fjórum undir. Við komumst einu yfir og vantaði bara að klára leikinn og sigla þessu heim.“

Sigur gegn Svartfjallalandi í dag færir íslenska liðinu að minnsta kosti leik um fimmta sæti mótsins. Sigur Dana á Frökkum færir Íslandi svo undanúrslitasæti, að því gefnu að Ísland vinni Svartfjallaland.

„Við byrjum bara á að fara í okkar leik og við þurfum einfaldlega að vinna þann leik. Það er númer eitt, tvö og þrjú. Ef eitthvað jákvætt gerist eftir það þá er það bara bónus. Við verðum bara að ganga inn í þennan leik með trú og baráttu og sigurvilja og vinna Svartfellinga.“

„Þeir eru virkilega góðir, finnst mér. Þeir eru með góðan markmann, þeir eru með alvöru skyttur, snögg og flotta hornamenn, þeir spila hraðan bolta. Þeir eru líka þungir og reyna að negla niður vörnina og fá skytturnar í sín færi. Þeir spila fínustu vörn. Þeir eru þéttir og aggressívir og baráttuglaðir.“

Viðtalið við Ými Örn má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.

Leikur Íslands og Svartfjallalands er í dag klukkan 14:30 í beinni útsendingu RÚV og Rásar 2. Upphitun hefst í EM-stofunni á RÚV klukkan 14:00.