Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

„Þetta voru erfiðir sjö dagar“

Mynd: EPA-EFE / MTI

„Þetta voru erfiðir sjö dagar“

26.01.2022 - 16:43
Bjarki Már Elísson segir að það hafi verið ofboðslega skemmtilegt að komast aftur inn á völlinn eftir erfiða sjö daga í einangrun. Hann segir Dani skulda Íslendingum sigur gegn Frökkum í kvöld.

Bjarki var elstur inni á vellinum á tímabili í dag og hann segist hafa náð að nota orkuna rétt í dag eftir einangrunina inni á hótelherbergi. Íslenska liðið mætti ákveðið til leiks og keyrði í rauninni yfir Svartfellinga á fyrstu mínútum leiksins. 

„Það var enginn að fara að taka þetta frá okkur, við eigum séns á undanúrslitunum og það er enginn að fara að taka það frá okkur,“ segir Bjarki og bætir við að liðið hafa viljað gefa tóninn strax í upphafi og klára leikinn. „Mér fannst þeir vera búnir bara eftir korter og svo sigldum við þessu heim.“

Bjarki segist ekki geta hafa verið annað en stoltur af strákunum sem komu inn í liðið á meðan aðrir sátu í einangrun. „Hver einasti maður sem hefur komið inn hefur skilað sínu og rúmlega það.“

Mikið hefur verið talað um danska landsliðsþjálfarann Nikolaj Jacobsen sem hefur sagt í viðtölum að hann hyggist hvíla sína sterkustu leikmenn gegn Frökkum og einblína á undanúrslitin á föstudag. Þá sagðist hann sjálfur ekki skulda Íslendingum neitt. Bjarki Már var ekki sammála því. 

„Danirnir skulda okkur þetta, þeir eiga bara að vinna í kvöld. Ég trúi ekki öðru en að þeir vilji fá Svíþjóð.“ En vinni Danir Frakka enda þeir í efsta sæti riðilsins og fá Svíþjóð í undanúrslitunum. Vinni Frakkar hins vegar enda þeir í efsta sæti og Danir mæta Spánverjum í undanúrslitaleiknum. Bjarki er heldur ekki stressaður yfir því að Jacobsen hyggist hvíla leikmenn. 

„Gæjarnir sem eru að koma inn, þó svo þeir séu að hvíla, þeir eru í heimsklassa. Ég held að þetta sé blöff hjá Jacobsen. Þeir ætla bara að vinna þennan leik og við förum í undanúrslit, það er bara þannig.“

Viðtalið við Bjarka Má má sjá í heild sinni í spilaranum hér efst á síðunni.