Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Hægt að sleppa veirunni meira lausri en áður

26.01.2022 - 17:46
Mynd með færslu
 Mynd: Hjalti Haraldsson - RÚV
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir hægt að sleppa veirunni lausri því afleiðingar smita eru miklu minni en áður. Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir áhættu tekna en telur ávinninginn þess virði.

Þórólfur segir að mesta óvissan sem fylgir því að dregið er úr sóttvarnaráðstöfunum snúi að því hversu mikið útbreiðsla covid eykst og hvað hlýst af henni. „Munum við fá fleiri alvarleg veikindi? Munum við fá fleiri veika á stofnunum þannig að fjarvistir fólks verða meiri sem skapar vandamál í starfsemi ýmissa fyrirtækja, heilbrigðisstofnana, hjúkrunarheimila og svo framvegis? Það er stóra óvissan í þessu.

Þórólfur segir vonlaust að reikna út fyrirfram hversu mikið daglegum smitum fjölgar. 

„Út af þessari miklu útbreiðslu þá erum við að komast á þann stað að við getum ekki beitt sömu nálgun og aðferð og við höfum beitt áður,“ segir Þórólfur. Nú sé sjúkdómurinn mildari og bólusetning útbreidd. „Afleiðingar af smitunum eru miklu minni, þess vegna getum við hleypt veirunni meira lausri en áður.“

Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, tekur undir með Þórólfi að breytingin sé mikil. „Við erum að veita veirunni býsna miklu meira frelsi til að ferðast um samfélagið, jú. Það má leiða að því rök að við séum að taka með þessu töluverða áhættu.“ Spurningin sé hvað fáist fyrir þá áhættu. „Það sem við fáum fyrir það er meira frelsi, til þess að vera til, til þess að hreyfa okkur, til þess að njóta menningar, til þess að stunda atvinnu og svo framvegis.“