Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

„Fögnum lífinu sem við þekktum fyrir veiruna“

26.01.2022 - 22:38
Erlent · COVID-19 · Danmörk · Evrópa
Mynd: EPA-EFE / RITZAU SCANPIX
Öllum sóttvarnartakmörkunum verður aflétt á þriðjudag í Danmörku. Nú göngum við út úr skugga kórónuveirunnar sagði forsætisráðherran á blaðamannafundi undir kvöld.

Það var glaðbeitt Mette Frederiksen sem gekk í pontu á upplýsingafundi sem ríkisstjórnin hafði boðað til síðdegis í dag. Efni fundarins spurðist út í gær, það væri von á góðum fréttum. „Við erum tilbúin að stíga út úr skugga kórónuveirunnar. Við kveðjum takmarkanir og fögnum lífinu sem við þekktum fyrir veiru. Faraldurinn er enn hérna 4 en með þá vitneskju sem við höfum núna þorum við sem stöndum hér að trúa að við séum komin yfir það versta,“ sagði Frederiksen. 

Þann fyrsta febrúar, sem er næsti þriðjudagur, verður öllum takmörkunum aflétt innanlands í Danmörku. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem það er gert. Áður en Omíkrón-afbrigðið lét á sér kræla í nóvember afléttu Danir öllu og hættu að skilgreina COVID-19 sem samfélagslega hættulegan sjúkdóm líkt og nú er aftur gert. Frederiksen tók fram að farsóttin yrði þó áfram til vandræða. „Margir verða veikir, mörgu verður aflýst og það verður erfitt að manna allar stöður á vinnustöðum, í skólum og annars staðar. Við getum ekkert gert núna annað en að biðja ykkur öll að finna jákvætt viðhorf til að þrauka þennan vetur því hann verður þungur, hann verður erfiður,“ sagði forsætisráðherrann á upplýsingafundinum fyrr í dag. 

olofr's picture
Ólöf Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV