Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Andstæðingur dagsins: Sprækir Svartfellingar

epa09707026 Nicolas Tournat (R) of France in action against Branko Vujovic (L) of Montenegro during the Men's European Handball Championship main round match between Montenegro and France in Budapest, Hungary, 24 January 2022.  EPA-EFE/Tamas Kovacs HUNGARY OUT
 Mynd: EPA-EFE - MTI

Andstæðingur dagsins: Sprækir Svartfellingar

26.01.2022 - 06:00
Ísland leikur lokaleik sinn í milliriðlakeppni EM í Búdapest í dag klukkan 14:30. Andstæðingurinn er lið sem hefur komið mörgum á óvart á mótinu: Svartfjallaland. Hér er allt sem þarf að vita um andstæðing dagsins.

Svartfjallaland er eitt yngsta sjálfstæða landið í Evrópu. Landið varð sjálfstætt frá Serbíu árið 2006 og í janúar ári síðar keppni handboltalandslið þjóðarinnar í fyrsta sinn undir eigin fána. Kvennalið þjóðarinnar hefur haldið þeim fána á lofti síðan, og varð meðal annars Evrópumeistari 2012 og fékk silfur á Ólympíuleikunum sama ár.

Karlaliðið hefur best náð 12. sæti á stórmóti og var það á fyrsta stórmóti þeirra á EM í Noregi 2008. Þeir eru nú á EM í fimmta sinn í röð og sjötta alls. Einu sinni kepptu þeir á HM og náðu í 22. sæti á HM 2013 á Spáni.

Ísland og Svartfjallaland hafa mæst tvisvar, í bæði skiptin í undankeppni EM 2016. Svartfjallaland vann fyrri leikinn í Svartfjallalandi, 25-24, en þann síðari vann Ísland í Laugardalshöll 34-22. Bæði lið fóru á EM 2016, við sem sigurvegarar undanriðilsins og þeir sem besta liðið í 3. sæti riðlanna.

Sprungið út á EM

Fyrir mótið áttu ekki sérlega margir von á miklu frá Svartfjallalandi. Þeir voru í riðli með Danmörku, Slóveníu og Norður-Makedóníu. Þeir byrjuðu á 9 marka tapi gegn Dönum, 30-21, en svo lá leiðin upp á við.

Norður-Makedónía lá fyrir þeim í leik tvö, 28-24, og í lokaleik riðilsins unnu þeir Slóveníu, 33-32, eftir að hafa verið undir nánast allan leikinn.

Gott gengi hélt áfram í fyrsta leik milliriðilsins og Króatar voru lagðir að velli, 32-26. Eftir það hefur liðið hins vegar tapað tveimur leikjum í röð; 34-30 gegn Hollandi og 36-27 gegn Frakklandi. 

Eins undarlegt og það er hefur Svartfjallaland því aðeins lagt að velli grannþjóðir sínar úr fyrrum Júgóslavíu. 

Vujovic

Stærsta stjarna svartfellsk handbolta í gegnum tíðina er klárlega Veselin Vujovic. Hann spilaði reyndar aldrei fyrir Svartfjallaland því hann var besti handboltamaður heims á 9. áratug síðustu aldar, Ólympíu- og heimsmeistari með Júgóslavíu og valinn besti leikmaður heims árið 1988.

Vujovic-nafnið er hins vegar sterkt í liði Svartfjallalands nú, þó það tengist Veselin ekkert. 

Mesta skytta liðsins nú er Branko Vujovic, 23 ára hægri skytta hjá Kielce. Hann var með samning til vorsins 2024 en í desember framlengdi Kielce við hann til 2027, og lánaði hann um leið í þrjú ár til Hannover í Þýskalandi frá og með næsta sumri. Kielce hefur því greinilega mikla trú á gutta en hefur ekki pláss fyrir hann akkúrat núna. Branko er marka- og stoðsendingahæstur í liði Svartfjallalands með 38 mörk og 16 stoðsendingar.

Í vinstra horninu er svo Milos Vujovic, 28 ára vinstri hornamaður Füchse Berlín í Þýskalandi. Hann lék áður um fimm ára skeið með Tatabanya í Ungverjalandi og var markahæstur í ungversku deildinni 2019. Milos hefur skorað 30 mörk á mótinu í ár og er baneitraður í hraðaupphlaupum liðsins.

Lið Svartfjallalands er þó margt meira en bara þessir tveir. Þeir eru með öflugan markvörð í Nebosja Simic, sem ver mark Melsungen í Þýskalandi. Fyrirliðinn Vasko Sevaljevic er þrautreyndur og öruggur miðjumaður/skytta. Línumaðurinn Nemanja Grbovic kann sitt fag upp á tíu og samam má segja um miðjumanninn Bozo Andelic.

Það er þolinmæðisverk að mæta Svartfjallalandi. Þeir spila af ofsalegri orku og á háu tempói. Það hefur tekið stórlið þessa móts drjúgan tíma að sigrast á þeim, þó það hafi oftast tekist. Önnur lið hafa brennt sig á því að taka þá ekki alvarlega, spyrjiði bara Króata og Slóvena, lið sem ætluðu sér að berjast um verðlaun á mótinu en sáu drauma sína verða að litlu eftir tapleiki gegn Svartfjallalandi.