Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Hallgrímur, Sigrún og Þórunn Rakel verðlaunuð

Mynd með færslu
 Mynd: Miðstöð íslenskra bókmennta

Hallgrímur, Sigrún og Þórunn Rakel verðlaunuð

25.01.2022 - 20:48

Höfundar

Hallgrímur Helgason, Sigrún Helgadóttir og Þórunn Rakel Gylfadóttir hljóta Íslensku bókmenntaverðlaunin 2021 fyrir verk sín.

Verðlaunin voru veitt í þremur flokkum; flokki fagurbókmennta, flokki barna- og ungmennabóka og flokki fræðibóka og bóka almenns efnis.

Sextíu kíló af kjaftshöggum eftir Hallgrím Helgason hlaut verðlaun í flokki fagurbókmennta. Sigurður Þórarinsson: Mynd af manni I-II eftir Sigrúnu Helgadóttur hlaut verðlaun í flokki fræðibóka og Akam, ég og Annika eftir Þórunni Rakel Gylfadóttur í flokki barna- og ungmennabóka.

Forseti Íslands afhenti verðlaunin við hátíðlega athöfn á Bessastöðum og í beinni útsendingu á RÚV. Íslensku bókmenntaverðlaunin nema einni milljón króna fyrir hvert verðlaunaverk og eru kostuð af Félagi íslenskra bókaútgefenda.