Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

450 milljónir í styrki til tónlistar og sviðslista

Mynd með færslu
 Mynd: Pexels
Ríkisstjórn Íslands ætlar að verja 450 milljónum króna í viðspyrnustyrki til tónlistar- og sviðslistamanna vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins á stéttirnar.

Samkomutakmarkanir hafi haft mjög neikvæð áhrif á afkomu sviðslistamanna, segir í fréttatilkynningu frá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu og mennta- og menningarmálaráðuneytinu.

Þannig hafi greiðslur til rétthafa í tónlist vegna tónleikahalds á árinu 2021 til að mynda verið 87% lægri en samsvarandi tekjur árið 2019. Þá hafi sjálfstæð leikhús og leikhópar farið verulega illa út úr faraldrinum vegna sóttvarnaaðgerða og lokana.

Fólki undir 35 ára aldri verður í fyrsta sinn eyrnamerkt listamannalaun og sérstakt framlag fer til Útflutningsmiðstöðvar íslenskrar tónlistar, Tónlistarsjóðs og Tónverkamiðstöðvar.