Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Þrír blaðamenn myrtir í Mexíkó það sem af er ári

epa09705742 State police guard the house of journalist Lourdes Maldonado, at Santa Fe subdivision in Tijuana, state of Baja California, Mexico, 23 January 2022. Maldonado became the second Mexican journalist assassinated in a week in Tijuana, a city bordering California, and the third in the entire country in January.  EPA-EFE/Joebeth Terriquez
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Blaðakonan Lourdes Maldonado Lopez var myrt í landamæraborginni Tijuana í Mexíkó í gær, sunnudag. Embætti saksóknara í borginni greindi frá þessu. Lopez er annar blaðamaðurinn sem myrtur er í Tijuana á innan við viku, og þriðji mexíkóski blaðamaðurinn sem myrtur er á þessu ári. Hún var skotin til bana þar sem hún sat inni í bíl, segir í tilkynningu saksóknaraembættis Baja California-ríkis, sem liggur að Bandaríkjunum.

 

Alfonso Margarito Martínez Esquivel, blaðamaður og ljósmyndari, sem sérhæfði sig í fréttum af glæpum og glæpagengjum, var skotinn til bana utan við heimili sitt í Tijuana hinn 17. janúar síðastliðinn, í þann mund sem hann var að stíga upp í bíl sinn til að aka á vettvang annars morðs sem hann hugðist fjalla um.

Viku fyrr, 10. janúar, fannst José Luis Gamboa Arenas, sjálfstætt starfandi rannsóknarblaðamaður og dálkahöfundur, látinn nærri heimili sínu í Veracruz-borg, stærstu borginni í samnefndu ríki í Mexíkó suðvestanverðu. Hann hafði verið stunginn fjölmörgum stungum með lagvopni.

Hvergi fleiri blaðamenn myrtir en í Mexíkó

Allt árið í fyrra voru sjö blaða- og fréttamenn myrtir í Mexíkó, samkvæmt gögnum samtakanna Blaðamenn án landamæra, fleiri en í nokkru landi öðru. Flest eða öll morðin eru talin tengjast umfjöllun blaðamannanna um glæpagengin sem vaða uppi í landinu. 

Þessi þrjú morð sem framin hafa verið áður en janúar er á enda runninn benda ekki til þess að þetta ár verði betra, nema síður sé. Mexíkó er í 143. sæti af 180 á lista Blaðamanna án landamæra um fjölmiðlafrelsi í heiminum. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV