Kælan mikla er tríó skipað söngkonunni Laufey Soffíu Þórsdóttur, bassaleikur er í höndum Margrétar Rósu Dóru-Harrýsdóttir og Sólveig Matthildur Kristjánsdóttir spilar á hljómborð og svuntuþeysa. Það er síðan Barði Jóhannsson úr Bang Gang sem þær fengu til að vera á tökkunum á sinni nýjustu skífu Undir köldum norðurljósum. Vegna covid gafst tími til að nostra við verkið sem þær segja sitt besta og lögin eigi það sameiginlegt að gerast undir köldum norðurljósum. Að venju er sóttur innblástur í íslenskar þjóðsögur, þjóðlög, drunga og fantasíur sem endurspeglast í ísdrottningunni Kælan Mikla sem stelpurnar segja alter ego þeirra.
Kælan Mikla er kannski ekki mest áberandi á Íslandi en hefur spilað þónokkuð erlendis með þekktum sveitum. Sveitin hefur unnið með og hitað upp fyrir Robert Smith og sveitina Cure, Pixies, Slowdive, Placebo og frönsku svartmálmssveitinni Alcest. Þær sérhæfa sig í myrkrum og köldum tóni og þykja gefa hann góðan á tónleikum með hjálp frá effektum og ljósum sem þykja ýta undir ævintýralegan og draugalegan stíl sveitarinnar.
Kælan Mikla og plata þeirra Undir köldum norðurljósum er plata vikunnar að þessu sinni og verður flutt í heild sinni ásamt kynningum á tilurð laganna eftir tíufréttir í kvöld.