Nauðsynlegt að hafa trú á biluðum hugmyndum

Mynd með færslu
 Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót - RÚV

Nauðsynlegt að hafa trú á biluðum hugmyndum

23.01.2022 - 14:30

Höfundar

Hilmar Sigvaldason fór úr vaktavinnu í Norðuráli á Grundartanga og út í það að taka á móti gestum og gangandi sem vitavörður í Akranesvita. Tíu ár eru í mars síðan vitinn var opnaður fyrir almenningi og á þeim tíma hefur hann orðið að einum helsta áfangastað ferðamanna á Akranesi og sömuleiðis menningarstofnun þar sem fjöldi sýninga og tónleika eru haldin á hverju ári.

Rætt var við Hilmar í Sögum af landi á Rás eitt.

„Ég var sem sagt stofnandi að ljósmyndaklúbb á Akranesi og einn félagi í klúbbnum Finnur Andrésson fær þá hugmynd að fara upp á topp á vitanum og taka ljósmyndir. Hann fær lánaðan lykill hjá Vegagerðinni og af því ég var formaður ljósmyndafélagsins lét hann mig geyma lykilinn. Í millitíðinni fæ ég þessa hugmynd að reyna að gera Akranesvitann að ferðamannastað,“ segir Hilmar.

Hilmar fór með hugmyndina fyrir markaðsnefnd Akraneskaupstaðar sem veitti vilyrði fyrir því að vitinn yrði opnaður gestum og gangandi. Hugmyndin þótti óvenjuleg.

„Menn höfðu ekki mikla trú á að þetta yrði eitthvað áframhaldandi verkefni,“ segir Hilmar sem lét þó aldrei bilbug á sér finna. „Það er eins og með margar bilaðar hugmyndir að maður verður hafa trú á því sem maður er að pæla í.“

Fyrstu árin sinnti Hilmar vitanum í sjálfboðavinnu

„Ég var að vinna í álverinu inn á Grundartanga og fyrstu þrjú eða fjögur árin gerði ég þetta með fram þeirri vinnu. Notaði minn frítíma til þess að pikka upp ferðamenn og bjóða þeim upp á toppinn.“

Á endanum varð vitavarðarstarfið að fullu starfi og Hilmar sagði skilið við Norðurál. En það var þó engin sérstök tenging við vitann sjálfan sem dreif hann til þessa.

„Mig langaði bara til að gera eitthvað fyrir bæinn minn og auka fjölda ferðamanna. Ég sá bara mannvirki sem hafði ekki verið nýtt í slíka hluti og vildi bara prófa þetta.“

Mynd með færslu
 Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót - RÚV
Á Breið á Akranesi eru tveir vitar. Hér er litli vitinn séður af toppi þess stóra.

Vitinn hefur þá á þessum áratug orðið eins konar menningarstofnun. Fjöldinn allur af tónleikum og myndlistarsýningum hafa verið haldin þar í gegnum árin. Hilmar segist ekki hafa tölu á fjölda viðburða. Á hverju ári eru haldnar fjórar til fimm sýningar. Eins hafa verið haldnar messur, nokkur brúðkaup og börn verið skírð í vitanum.

Hér má hlýða á þáttinn Sögur af landi á Rás eitt í heild sinni.

Tengdar fréttir

Veður

Tók veðrið í 58 ár en hlustar sjaldan á veðurfréttir

Umhverfismál

Fór út í ferðaþjónustu þegar hún fór á eftirlaun