Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Karabatic: Þetta hefur ekki gerst í langan tíma

epa09702737 Ymir Gislason (R) and Ellidi Vidarsson (front) of Iceland in action against Nikola Karabatic (L) of France during the Men's European Handball Championship main round match between  France and Iceland at the MVM Dome in Budapest, Hungary, 22 January 2022.  EPA-EFE/Zsolt Szigetvary HUNGARY OUT
 Mynd: EPA-EFE - MTI

Karabatic: Þetta hefur ekki gerst í langan tíma

23.01.2022 - 09:02
„Franska liðið sökk eftir að hafa fengið á sig íslenskan brotsjó,“ segir á vef franska blaðsins Le Figaro um tap ólympíumeistarana á Evrópumótinu í handbolta í gær. Liðið er sagt hafa mætt ofjörlum sínum, bæði líkamlega og tæknilega. Nicola Karabatic, sem æði oft hefur leikið íslenska liðið grátt á stórmótum, sagðist vera bjargarlaus eftir tapið.

„Franska liðið tekið í kennslustund hjá ungu íslensku liði,“ segir Le Figaro í umfjöllun sinni um leikinn. 

Blaðið hrósar sérstaklega frammistöðu Viktors Gísla Hallgrímssonar og segir að eflaust hafi margir Frakkar, búsettir nærri Nantes, glaðst yfir leik hans. Viktor Gísli gengur til liðs við Nantes á næsta tímabili. Ómar Ingi Magnússon og Viggó Kristjánsson eru einnig nefndir; Ómar Ingi hafi verið Frökkunum erfiður í fyrri hálfleik en Viggó tekið við keflinu í þeim seinni.

Nicola Karabatic, ein helsta stjarna Frakka, sagðist í viðtölum eftir leikinn líða bjargarlaus eftir tapið.  „Þeir áttu leik lífsins og við fundum engar lausnar. Þetta hefur ekki gerst fyrir okkur í langan tíma. Við erum allir mjög vonsviknir“  

Hann vildi ekki gera of mikið úr fjarveru lykilmanna þótt liðið hefði vissulega saknað þjálfarans sem er í einangrun vegna COVID-19. Franska liðinu hefði einfaldlega ekki tekist að bregðast við þessari stöðu. „Nú erum við komnir með bakið upp við vegg og verðum að vinna tvo síðustu leikina ef við ætlum í undanúrslit. “

Karabatic sagðist aldrei hafa upplifað stórmót eins og mótið í Ungverjalandi. Menn vöknuðu og vissu ekki hvort þeir yrðu með í næsta leik vegna COVID-smits. „Þú undirbýrð þig í heilan mánuð fyrir luktum dyrum og hittir ekki fjölskyldu þína.  Það eru vonbrigði að við leikmennirnir getum ekki verið í okkar eigin sóttvarnakúlu en svo er þetta og við breytum engu úr þessu. Vonandi verður þetta öðruvísi í framtíðinni.“ 

Danskir fjölmiðlar lofuðu frammistöðu Íslands í gær.  Bent Nygaard, séfræðingur TV2, sagði þetta ein ótrúlegustu úrslit sem hann hefði séð. Hann væri eiginlega orðlaus og hefði aldrei séð franska liðið leikið svona grátt. 

Anders Eggert, sem einnig fylgist með mótinu fyrir TV2, sagði að þeir hefðu hrósað frönsku stórstjörnunni Dika Mem fyrir leikinn og sagt að nú fengi fólk að sjá heimsklassa örvhenta skyttu.  Fólk hefði vissulega fengið að sjá slíka skyttu nema hún hefði verið í hinu liðinu; Ómar Ingi Magnússon. 

Anders Zachariassen sagði úrslitin hreinlega klikkuð. Að jafn vængbrotið lið og Ísland væri með gæti valtað yfir Ólympíumeistarana væri með ólíkindum. 

Leikmenn danska liðsins eru hins vegar ekkert alltof kátir með sigur Íslands. Því ef Frakkar hefðu unnið Ísland og Danir Króatíu hefðu liðin tvö verið komin með annan fótinn í undanúrslit. 

„Þetta voru vondar fréttir fyrir okkur,“ segir Henrik Møllgaard í viðtali við TV2. Nú þurfi danska liðið tvö stig til viðbótar í næstu tveimur leikjum.  Nikolaj Jacobsen, landsliðsþjálfari Dana, bendir á að úrslitin í leik Frakka og Íslendinga sýni að menn geti ekki gengið að neinu vísu.  

Næsti leikur Íslands er gegn Króatíu á morgun, mánudag. Upphitun fyrir hann hefst klukkan 14 og leikurinn sjálfur 14:30.