Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Guðjón Valur: „Var dáleiddur fyrir framan sjónvarpið“

Mynd: EPA / EPA

Guðjón Valur: „Var dáleiddur fyrir framan sjónvarpið“

23.01.2022 - 14:12
Handboltagoðsögnin Guðjón Valur Sigurðsson er gestur í Íþróttavarpi RÚV að þessu sinni. Til umfjöllunar er, líkt og í síðustu þáttum, EM í handbolta og frækinn sigur Íslands gegn Frökkum í gær.

„Manni líður bara ótrúlega vel og strákarnir eru bara að heilla land og þjóð og ég er þar engin undantekning,“ segir Guðjón Valur í símaviðtali frá Þýskalandi.

Hann segist ekki hafa skynjað að uppgjöf væri í liðinu þrátt fyrir erfiða stöðu í gær. „Ég var þess heiðurs aðnjótandi að fá að tilheyra þessu liði í mörg ár og það voru góðir leikir og slæmir leikir og allskonar móment sem maður var að upplifa það að öll sund virtust lokuð en ég get alveg viðurkennt að ég var ekki bjartsýnn fyrir leikinn í gær. Alls ekki og mjög stórt verkefni á móti Frökkum og ekki auðvelt,“ segir Guðjón.

„En þegar leikurinn byrjaði og maður sá holninguna á liðinu og hvernig þetta allt saman leit út, þá var maður fljótur að átta sig á því að það var eitthvað sérstakt í gangi og var að fæðast. Ég var alveg dáleiddur fyrir framan sjónvarpið og fannst alveg æðislegt að fylgjast með.“

„Þeir voru búnir að sýna það á móti Dönum að þrátt fyrir öll þessi forföll og skakkaföll sem að búin eru að dynja á liðinu, þá er ennþá hörku handboltamenn í liðinu og góðir varnarmenn. Mér fannst bara æðislegt að sjá það allt koma saman í gær,“ segir Guðjón Valur meðal annars.

Þáttinn má nálgast hér að ofan og í öllum helstu hlaðvarpsveitum. Nýtt Íþróttavarp kemur inn annan hvern dag á meðan EM í handbolta stendur yfir.