Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Brýnt að skoða hvernig létta megi á takmörkunum

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Brýnt að skoða hvernig megi létta á sóttvarnaráðstöfunum til að halda samfélaginu sem mest gangandi og í samráði við sóttvarnalækni er nú verið að skoða allar mögulegar afléttingar með hliðsjón af skynsemi og öryggi. Þetta segja heilbrigðisráðherra og forstjóri Landspítalans í sameiginlegri grein sem birtist á visir.is í morgun.

Þetta er í fyrsta skipti sem heilbrigðisráðherra og yfirmaður Landspítalans skrifa grein saman um COVID-19 og næstu skref framundan.

Willum Þór Þórsson og Guðlaug Rakel Sveinsdóttir segja í grein sinni að eiginleikar omíkron-afbrigðisins valdi því að mikið sé um smit meðal barna og ungmenna með tilheyrandi áhrifum á fjölskyldur og samfélagið í heild. 

Þau minna á að þótt einkenni afbrigðisins séu vægari og minna um að fólk þurfi að leggjast inn á sjúkrahús sé fólk enn að veikjast. Í gær lágu 37 á sjúkrahúsi með COVID-19.

Engu að síður segja þau brýnt að skoða hvernig megi létta á sóttvarnaráðstöfunum til að halda samfélaginu sem mest gangandi en síðustu daga hefur nærri 7 prósent þjóðarinnar verið ýmist í sóttkví eða einangrun. 

„Í samráði við sóttvarnalækni eru nú allar mögulegar afléttingar í skoðun með hliðsjón af skynsemi og öryggi,“ segja ráðherrann og settur forstjóri. Næstu skref séu að aflétta neyðarstigi spítalans. „Áður en það er gert verðum við að vera fullviss um að slíkt sé óhætt.“

Það verði gert að vel ígrunduðu máli, með hliðsjón af nýjustu spálíkönum og með hliðsjón af gögnum frá færustu sérfræðingum.

Fram undan séu því afléttingar en þær verði að varkárar og feta þurfi leiðina út með stuttum en öruggum skrefum. 

Þau segja að „með öflugri samstöðu og miklum fórnum almennings og heilbrigðisstarfsfólks“ ásamt stuðningi heilbrigðisyfirvalda sé að takast að koma í veg fyrir óhefta útbreiðslu alvarlegra veikinda hér á landi með tilheyrandi álagi á heilbrigðiskerfið í landinu. „Við erum á réttri leið og munum og eigum að feta þá leið saman.“

Mörg lönd í Evrópu eru nú farin að skoða hvernig megi létta á sóttvarnatakmörkunum.  

Írar ákváðu í gær að aflétta á öllum takmörkunum og í Færeyjum hefur verið tilkynnt öllum takmörkunum verði aflétt í febrúar, að því gefnu að ekki komi fram nýtt afbrigði sem breyti stöðunni. Frönsk yfirvöld hafa einnig gefið það út að þau ætli að slaka á aðgerðum í febrúar. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV