Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Berjast gegn omíkron á sama hátt og delta-afbrigðinu

epa07725994 Prime Minister of New Zealand Jacinda Ardern and Australian Prime Minister Scott Morrison (not pictured) speak during a meeting in Melbourne, Australia, 19 July 2019.  EPA-EFE/JULIAN SMITH  AUSTRALIA AND NEW ZEALAND OUT
Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja Sjálands, frestaði brúðkaupi sínu vegna hertra sóttvarnareglna Mynd: EPA-EFE - AAP
Rauðu viðbúnaðarstigi hefur verið lýst yfir á Nýja Sjálandi vegna útbreiðslu omíkron-afbrigðis kórónuveirunnar þar í landi. Þetta þýðir ekki að öllu verði skellt í lás, en fjöldatakmarkanir hafa verið innleiddar á ný ásamt kröfu um framvísun bólusetningarvottorðs. Innandyra mega nú mest 100 manns koma saman, og þau ein fá að vera með í gleðskapnum sem geta framvísað bólusetningarvottorði.

Forsætisráðherrann frestaði brúðkaupi sínu

Jacinda Ardern, forsætisráðherra Nýja Sjálands, hefur slegið fyrirhuguðu brúðkaupi sínu og heitmanns síns á frest vegna þessa, þar sem hún gerði ráð fyrir öllu fleiri gestum í þann gleðskap.

Hertar sóttvarnareglur taka gildi á Nýja Sjálandi frá og með morgundeginum. Auk fyrrgreindra fjöldatakmarkana og kröfu um bólusetningarvottorð verður grímuskylda innleidd víða. Þá mega veitingamenn falla frá kröfunni um bólusetningarvottorðið gegn því að takmarka gestafjöldann við 25.

Sömu viðbrögð gegn omíkron og delta

Ardern sagði á fréttamannafundi í Wellington í morgun, að áætlun stjórnvalda nú væri í stórum dráttum sú sama og gripið var til gegn Delta-afbrigðinu; mikið yrði skimað, smit rakin af krafti og smitaðir og útsettir sendir í sóttkví og einangrun til að hægja á útbreiðslu veirunnar.

Annars staðar í heiminum, svo sem á Írlandi og í Suður-Afríku, þar sem omíkron-afbrigðið er orðið allsráðandi, hafa stjórnvöld ýmist þegar afnumið flestar eða allar takmarkanir eða boðað afnám þeirra innan skamms. Enn annars staðar hefur takmörkunum ýmist verið haldið tiltölulega óbreyttum eða þær hertar nokkuð, líkt og hér á landi.

Gengur vel að halda aftur af delta-afbrigðinu

Nýja Sjáland hefur verið meira og minna lokað fyrir utanaðkomandi ferðalöngum frá því að heimsfaraldur kórónuveirunnar hófst fyrir alvöru. Vel hefur gengið að hefta útbreiðslu delta-afbrigðisins í landinu, þar sem það greinist að meðaltali í 20 manns á dag.

Eftir að omíkron-afbrigðið skaut upp kollinum þar fyrir skemmstu hefur fjölgað mjög í hópi þeirra sem þurfa að fara í einangrun og sóttkví. Því var gripið til þess ráðs að setja hömlur við því hve margir Nýsjálendingar erlendis fá að snúa heim á meðan stjórnvöld melta með sér hvenær og hversu bratt þau eiga að fara í að opna landið fyrir umheiminum. Um 93 prósent Nýsjálendinga, 12 ára og eldri, eru fullbólusett og rúmur helmingur þeirra hefur fengið örvunarskammt að auki.