Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

„Við erum þekktir fyrir að gefast aldrei upp“

Mynd: EPA / EPA

„Við erum þekktir fyrir að gefast aldrei upp“

22.01.2022 - 16:00
„Maður er að verða að vissu leyti ónæmur fyrir þessum áföllum sem dynja á okkur,“ segir Guðmundur Guðmundsson, þjálfari karlalandsliðsins í handbolta. Í dag varð ljóst að tveir leikmenn til viðbótar væru með kórónuveiruna og því eru þeir orðnir níu í heildina. Ísland mætir Ólympíumeisturum Frakklands kl. 17 í dag.

Janus Daði Smárason og Arnar Freyr Arnarsson greindust með veiruna í dag ofan á þá sjö sem áður höfðu greinst síðustu daga. „Maður er farinn að brynja sig gegn þessu og láta þetta ekki slá sig út af laginu. Við þurfum að halda áfram við þessar erfiðu aðstæður og reyna gera það besta úr stöðunni. Þetta er ekki auðvelt vegna þess að því miður er þetta þannig að þetta eru átta lykilmenn sem hafa lent í þessari kórónuveiru og þess vegna er þessi staða óhemju erfið,“ segir Guðmundur.

„Ég er búinn að liggja yfir þessu síðan ég vissi þetta, hvernig við ætlum að stilla þessu upp og auðvitað er ég búinn að koma saman leikplani en við erum að mæta núna Ólympíumeisturum og það er auðvitað ekki einfalt verkefni og hefði ekki verið það heldur með fullt lið,“ segir hann.

„Íslendingar þekktir fyrir að hafa stórt og mikið hjarta þegar kemur að handbolta“

„Ég sagði við drengina að við Íslendingar höfum verið þekktir fyrir að hafa stórt og mikið hjarta þegar kemur að handbolta og við erum þekktir fyrir að gefast aldrei upp. Við ætlum ekkert að gefast upp við þessar aðstæður, við ætlum að gefa allt í leikinn sem við getum. Þetta er mjög erfið staða en í öllum stöðum felast tækifæri og við erum bara staðráðnir í því að gera eins gott úr þessari stöðu og möguleiki er á.“

Tveir leikmenn komi inn í hópinn í gær, þeir Magnús Óli Magnússon og Vignir Stefánsson. „Ég hef þurft að gjörbreyta leikplaninu. Við erum að fara skoða stöður með örvhentan á miðju og munum örugglega byrja þannig. Við erum með plan að geta farið í sjö á sex. Við þurfum að haga leik okkar skynsamlega í dag, til að komast eins vel frá leiknum og kostur er. Það gefur auga leið að þegar vantar átta lykilmenn í íslenska landsliðið þá er auðvitað staðan orðin mjög alvarleg,“ segir Guðmundur að lokum.

Viðtalið við Guðmund má sjá í spilaranum hér fyrir ofan. Leikur Íslands og Frakklands hefst kl. 17:00 á RÚV en upphitun hefst í EM stofunni hálftíma fyrr.

Tengdar fréttir

Handbolti

Janus Daði og Arnar Freyr smitaðir

Handbolti

Leikdagur: Ísland mætir Ólympíumeisturunum

Handbolti

Andstæðingar dagsins: Ólympíumeistarar Frakka

Handbolti

Vita ekki hvernig leikmennirnir smituðust