Janus Daði Smárason og Arnar Freyr Arnarsson greindust með Covid í dag og því var Ísland án átta leikmanna í leik dagsins. Leikurinn var jafn fyrstu mínúturnar en þegar tíu mínútur voru liðnar kom Elliði Snær Viðarsson Íslandi í 4-6. Viktor Gísli Hallgrímsson tók sig svo til og lokaði íslenska markinu, og hver sóknin á fætur annarri gekk upp hjá Íslandi. Þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður leiddi Ísland með fjórum mörkum 5-9. Ómar Ingi Magnússon var öflugur í sóknarleik Íslands og gerði átta mörk í fyrri hálfleiknum. Frakkarnir höfðu engin svör og sjö mörkum munaði í hálfleik, 10-17 Íslandi í vil.
Íslenska liðið hélt þeirri forystu áfram framan af í seinni hálfleik, og þegar seinni hálfleikurinn var rúmlega hálfnaður var munurinn níu mörk 16-25. Eftir að tvær sóknir höfðu farið forgörðum í röð hjá íslenska liðinu kom Viktor Gísli til bjargar enn eina ferðina. Íslenska liðið átti ekki í vandræðum með eftirleikinn og vann að lokum afar öruggan átta marka sigur 21-29.
Ómar Ingi Magnússon var markahæstur í íslenska liðinu með tíu mörk, og Viggó Kristjánsson gerði níu. Viktor Gísli varði 15 skot í leiknum. Frábær frammistaða og Ísland er því með fjögur stig í milliriðlinum, líkt og Frakkland og Danmörk.