Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Stórkostlegur sigur Íslands á Ólympíumeisturunum

epa09702737 Ymir Gislason (R) and Ellidi Vidarsson (front) of Iceland in action against Nikola Karabatic (L) of France during the Men's European Handball Championship main round match between  France and Iceland at the MVM Dome in Budapest, Hungary, 22 January 2022.  EPA-EFE/Zsolt Szigetvary HUNGARY OUT
 Mynd: EPA-EFE - MTI

Stórkostlegur sigur Íslands á Ólympíumeisturunum

22.01.2022 - 16:27
Ísland vann stórkostlegan átta marka sigur á Frakklandi, 21-29, í öðrum leik liðanna í milliriðlinum. Ísland var án átta lykilmanna en stórkostleg frammistaða óreyndari leikmanna skilaði öruggum sigri á Ólympíumeisturunum. Viktor Gísli Hallgrímsson varði 15 skot í leiknum og Ómar Ingi Magnússon skoraði 10 mörk.

Janus Daði Smárason og Arnar Freyr Arnarsson greindust með Covid í dag og því var Ísland án átta leikmanna í leik dagsins. Leikurinn var jafn fyrstu mínúturnar en þegar tíu mínútur voru liðnar kom Elliði Snær Viðarsson Íslandi í 4-6. Viktor Gísli Hallgrímsson tók sig svo til og lokaði íslenska markinu, og hver sóknin á fætur annarri gekk upp hjá Íslandi. Þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður leiddi Ísland með fjórum mörkum 5-9. Ómar Ingi Magnússon var öflugur í sóknarleik Íslands og gerði átta mörk í fyrri hálfleiknum. Frakkarnir höfðu engin svör og sjö mörkum munaði í hálfleik, 10-17 Íslandi í vil.

Íslenska liðið hélt þeirri forystu áfram framan af í seinni hálfleik, og þegar seinni hálfleikurinn var rúmlega hálfnaður var munurinn níu mörk 16-25. Eftir að tvær sóknir höfðu farið forgörðum í röð hjá íslenska liðinu kom Viktor Gísli til bjargar enn eina ferðina.  Íslenska liðið átti ekki í vandræðum með eftirleikinn og vann að lokum afar öruggan átta marka sigur 21-29.

Ómar Ingi Magnússon var markahæstur í íslenska liðinu með tíu mörk, og Viggó Kristjánsson gerði níu. Viktor Gísli varði 15 skot í leiknum. Frábær frammistaða og Ísland er því með fjögur stig í milliriðlinum, líkt og Frakkland og Danmörk.