Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Óviðunandi og lögbrot að sigla réttindalaus

22.01.2022 - 20:23
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hvorki Vegagerðin sem á ferjuna Herjólf né Landhelgisgæslan sem hefur eftirlit með lögmæti skráningar í skipum vissu af því að skipstjóri hefði siglt með farþega svo dögum skipti án réttinda. Hann komst fram hjá því með því að skrá lögmæta skipstjóra í ferðir sem hann sigldi sjálfur.

Vegagerðin á ferjuna Herjólf. Hún gerði samning við Herjólf ohf. um reksturinn. Herjólfur ohf. er í eigu Vestmannaeyjabæjar. 

Bergþóra Þorkelsdóttir forstjóri Vegagerðarinnar sagði í hádegisfréttum útvarpsins að mál réttindalausa skipstjórans væri litið alvarlegum augum og að það væri alls ekki í samræmi við samninga við útgerð Herjólfs. Þetta væri óásættanlegt og að Vegagerðin ætlaðist til að stjórn Herjólfs hafi stjórn á því að svona lagað gerðist ekki. 

Framkvæmdastjóri Herjólfs staðfesti í gær að skipstjórinn hefði verið áminntur og að hann hefði verið lækkaður í tign en hann var skráður yfirskipstjóri. 

Hann sigldi Herjólfi sem skipstjóri frá því rétt fyrir jól og til í kringum fjórða janúar þegar hann fékk skipstjórnarréttindin aftur. Þau þarf að endurnýja á fimm ára fresti og hefur Fréttastofan ekki upplýsingar um það hvað olli því að maðurinn dró það svo lengi að endurnýja. 

Í lögum um lögskráningu sjómanna segir að skipstjóri skuli áður en haldið er úr höfn sjá til þess að allir skipverjar séu lögskráðir í skiprúm. Og að óheimilt sé að halda úr höfn nema allir hafi verið lögskráðir. Þegar siglingu er lokið á að skrá úr skiprúmi. 

Þegar réttindalausi skipstjórinn var á vakt þá skráði hann sig ekki sem skipstjóra heldur hina skipstjóra Herjólfs sem eru tveir. Þeir vissu ekkert af þessu. Þannig sigldi hann skipinu með fjölda farþega í líklega um tíu daga. 

Ef eitthvað hefði komið fyrir má ætla að tryggingar skipsins hefðu ekki verið eins sterkar eins og ef skipstjóri með réttindi hefði stýrt því. 

Samgöngustofa sem heldur utan um rafræna lögskráningarkerfið gat ekki vitað að réttindalaus skipstjóri væri um borð því að hann falsaði lögskráninguna. 

Landhelgisgæslan má fara um borð í skip samkvæmt lögunum og kanna lögmæti lögskráningar. Sé henni ábótavant á Gæslan að kæra það. 

Brot gegn lögunum varða sektum eða allt að tveggja ára fangelsi. 

Vissi Landhelgisgæslan af þessu um borð í Herjólfi að þar væri maður sem væri ekki með réttindi? „Nei þetta mál hefur ekki komið opinberlega inn á borð til okkar en við höfum séð þetta í fréttum og ég geri ráð fyrir því að við bjóðum lögreglunni í Vestmannaeyjum aðstoð við að skoða málið frekar ef óskað er eftir því,“ segir Ásgrímur L. Ásgrímsson framkvæmdastjóri aðgerðasviðs Landhelgisgæslunnar

Ef maður skráir annan skipstjóra heldur en maður er sjálfur þá er það væntanlega einhvers konar skjalafals eða eitthvað slíkt? „Ja, það er orðið meira lögfræðimál en ég sem framkvæmdastjóri aðgerðasviðs hjá Landhelgisgæslunni þekki en það er alla vega brot á lögum um lögskráningu og skip.“