Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Kraftaverkasögur sem koma sífellt á óvart

Mynd: Forlagið / Forlagið

Kraftaverkasögur sem koma sífellt á óvart

22.01.2022 - 10:00

Höfundar

Kraftaverkasögur Ísaks Harðarsonar, í bókinni Hitinn á vaxmyndasafninu, eru írónískar, grátbroslegar, kímnar og leiftrandi af hugarflugi höfundar, að mati Gauta Kristmannssonar gagnrýnanda.

Gauti Kristmannsson skrifar:

Jarteinasögur eða kraftaverkasögur dýrlinga og annarra guðs manna voru nokkuð algengar í katólskum sið á miðöldum, meira að segja hér á landi. Bókmenntagreinin sú, ef svo má kalla, er raunar ennþá til og hefur verið í gegnum aldir á ýmsu formi og búa slíkar sögur yfir einhverjum yfirnáttúrlegum þætti sem kraftaverkið er. Ísak Harðarson hefur nú sent frá sér smásagnasafn sem hefur undirtitilinn „sjö nútímakraftaverkasögur“ og það má vissulega finna í þeim ýmis kraftaverk þótt þau séu talsvert öðru vísi en þau sem frá er greint í dýrlingasögum. Enda eru söguhetjur þessara sagna fæstar nokkrir dýrlingar, nema ef væri sögukona titilsögunnar sem reyndar virðist koma fyrir í tveimur öðrum, ef nöfn má marka. Svo eru þessar sögur líkari allegoríum, táknsögum, sem segja eitthvað annað en yfirborð þeirra gefur í skyn.

Bókin hefst á sögunni „Kvöld í heimsrústum“ og er dálítið dularfull saga af tveimur gamalmennum í kjallara sem eru að verða vitlaus á einhverjum spegli gluggagægis sem er á sveimi utan við kjallaragluggann hjá þeim. Það er ekki fyrr en undir lokin að lesandinn fær frekari í botn í þessa sögu, en við taka mjög áhugaverðar sögur, írónískar, grátbroslegar, kímnar og leiftrandi af hugarflugi höfundar, kraftaverkasögur sem koma á óvart í sífellu en eru samt einhvern veginn rökréttar. Sú fyrsta, „Óp samanburðarmálfræðingsins“, er úthugsuð þar sem við fáum innsýn í einmanaleika og þrá manneskju, sem setur sér það markmið að tengjast engum, eftir tengslum þrátt fyrir allt. Eins og fleiri sögur í þessari bók lýsir hún gríðarvel hvernig maðurinn er fangi sjálfs sín og tilvistar sinnar og að skilgreiningin á frelsi er afstæð eftir sjónarhóli hvers og eins. Og það má segja að klímaxið með tölunni pí sé óborganlegt skáldaskúbb, óp samanburðarmálfræðingsins er því afar órætt en táknar um leið á einhvern hátt auðskildasta grundvallaratriði tilverunnar.

Sagan „Aksúbab“ segir frá ungum dreng sem eignast lítinn páfagauk, úndúlata, fugl í búri sem fær hann til að hugsa um tilvist hans í því og færir honum síðan kvenfugl sem er allt öðruvísi en hann, upprifin og kraftmikil, dálítil frekja. Og kraftaverkið í sögunni opnar augu drengsins enn frekar fyrir einhvers konar frelsi en írónían felst í lokum sögunnar, en erfitt er að rekja þessar sögur beinlínis án þess að spilla fyrir þeim svo hlustendur verða að láta sér nægja svona kryptískar lýsingar og fara svo og lesa.

„Einar alheimsins“ er fjórða sagan og segir frá hlauparanum Einari sem er að hlaupa á eftir Hamingjunni með stórum staf, algjörlega grímulaus allegoría en afar vel byggð með kosmískum tilvísunum sem opna nýjar víddir og ættu að vekja marga lesendur til umhugsunar, ef ekki um lífsgæðakapphlaupið bókstaflega þá að minnsta kosti um tilgang lífsins sem er ekki svo lítið í einni smásögu. Bygging sögunnar eða öllu heldur framvinda er aðdáunarverð í einfaldleika sínum og krafti.

Sögurnar tengjast ekkert innbyrðis nema gegnum hin stóru þemu tilverunnar sem tæpt hefur verið á hér á undan, sjónarhornin eru mörg og hugmyndaríkið er mikið, samt er eins og einhverjar glefsur séu fengnar úr veruleikanum, veruleika einhvers eða einhverra. „Sameinuðu þjóðirnar; bláprent“ er raunsæislega sögð saga en er á sama tíma algjörlega annarleg og hún leiðir sögumanninn, borgarskipulagsfræðinginn Hamlet og Ófelíu hans inn í aðra vídd; á stuttum kafla er samt eins og einhver rithöfundur hafi fundið þessa Ófelíu þegar hún hjólaði hjá á Hrísateignum. En stílþrif höfundar og heimspekileg sýn kemur vel fram í einu dæmi úr þessari sögu, langri málsgrein þar sem sögumaður, akandi bíl á Granda, veltir fyrir sér skilum á ímyndun og veruleika:

Þá er þetta blessunarlega óáberandi ökumaður og eiginlega ekki raunverulegur, heldur miklu fremur eins konar teikning eða uppkast að mannveru, og þannig finnst mér gott að hugsa mér heiminn; sem teikningu, bláprent, uppdrátt, drög að heimi, því þegar lífið er þannig þá eru allir hlutir mögulegir; ekkert er orðið sem ekki er hægt að taka aftur; allt er í upphafi sínu, rétt eins og í öndverðu þegar það var ný hugsun í huga Guðs: hreint, tært, næstum glært, og alls ómengað af sjálfu sér.

Írónían um ómöguleika hins mögulega skín í gegn en það er útópía sögumannsins og kannski verður hún að veruleika í lok sögunnar, það væri vissulega kraftaverk.

Titilsagan „Hitinn á vaxmyndasafninu“ er bráðfyndin allegoría um loftslagsbreytingar og það verður að segjast að fáum hefur tekist að fjalla um þau alvarlegu mál með jafnþurrum húmor og hér hefur verið gert. Sagan skartar stórum nöfnum veraldarsögunnar, að vissu leyti minnti hún mig á skáldsögu Hallgríms Helgasonar, Hr. Alheimur, og er það kannski meðvitað því Hallgrímur birtist sjálfur í draumi sögumanns í næstu sögu. En það er engu spillt með því að segja frá því að sagan gerist á vaxmyndasafni þar sem frægar persónur lifna við þegar hitinn vekur þær til lífsins og þær fara að ræða málin á mjög jarðbundinn hátt. Þarna eru Elvis, Che Guevara, Nelson Mandela, Albert Einstein, Viktoría drottning og Atli Húnakonungur meðal annarra og sögukonan er María guðsmóðir. Sannkölluð kraftaverkasaga með fyndinni vendingu í lokin.

Sagan með þeim dálítið hátimbraða titli „Lífsins söngur, stígar, blóð“ reynist alls ekki vera það; hún segir frá heimilisleysingjanum og alkóhólistanum Henning Henningssyni sem er kominn á endastöð, býr ólöglega í iðnaðarhúsnæði Vogunum og er ofsóttur af hvæsandi rödd milli þess sem hann þjórar með vinum sínum. En hann upplifir kraftaverk sem ekki verður sagt frá hér og síðan grikk örlaganna sem býður upp á klassíska vendingu smásögunnar þar sem harmræn tilvera mannleysunnar starir framan í hana sjálfa. Aftur og enn tekst höfundi að leiða lesandann með ófyrirsjáanlegri framvindu án þess að áhuginn á örlögum hins lítilfjörlega sögumanns minnki.

Lokasagan, „Morgunn biðukollanna“, lokar síðan hringnum með sömu sögupersónum og komu fram í þeirri fyrstu og nú virðist Jósef vera kominn með spegilinn í eigin hendur og er basla við að sjá eitthvert ljósfyrirbæri fyrir utan kjallarakytruna með aðstoð hans. En það sem hann sér á endanum er óvænt og fallegt; það sannfærir hann og konu hans, Maríu, um að þau séu lifandi, sem auðvitað er kraftaverk, eins og þessi bók er kannski líka á sinn hátt, hún færir okkur kraftaverkin til jarðar og fær okkur til að líta þröngan veruleikann öðrum augum.

 

Tengdar fréttir

Menningarefni

Sprúðlandi myndir sem yfirbuga rökfræðina