Lögreglan í Istanbúl í Tyrklandi handtók Sedef Kabas, tyrkneskan fréttamann, í nótt fyrir að hafa móðgan Recep Tayyip Erdogan, forseta landsins. Fréttastofa CNN í Tyrklandi greinir frá.
Dómstóll í borginni úrskurðaði Kabas í gæsluvarðhald í dag en hún hefur verið ákærð fyrir ummæli sem hún lét falla bæði í sjónvarpi og á Twitter.
Ummælin sem um er að ræða mætti þýða á þennan hátt: „Þegar uxinn flytur í höllina verður hann ekki konungur. Höllin verður fjós.“ Samkvæmt CNN í Tyrklandi er þetta málsháttur sem Kabas segist hafa birt í breyttri mynd.
"Öküz saraya çıkınca kral olmaz. Ama saray ahır olur."
„Ég ætlaði mér ekki að særa neinn. Ég hafna þessum ásökunum og krefst þess að verða látin laus,“ hefur miðillinn eftir Kabas.
Allt að fjögurra ára fangelsisvist er við því að móðga forseta Tyrklands og hefur fjöldi verið sóttur til saka fyrir brotið síðustu ár. Frá árinu 2014, þegar Erdogan tók við embætti, hafa 160.169 möguleg brot verið til rannsóknar. Nærri þrettán þúsund hafa verið sakfelld.