Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Ekki hissa ef sóttkví og einangrun hætti innan skamms

22.01.2022 - 12:39
Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Sóttvarnir og einangrun gætu verið á undanhaldi að mati Kára Stefánssonar forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar,  nema í undantekingartilfellum. Gögn sýni að full ástæða sé til að endurskipuleggja aðgerðir.

Alls greindust 1.224 með COVID-19 smit í gær, þar af voru 17 sem greindust á landamærunum. Alls voru 644 í sóttkví. Þetta kemur fram í bráðabirgðatölum frá Almannavörnum. 187 starfsmenn Landspítalans eru nú í einangrun eða inniliggjandi með COVD-19 sýkingu og hafa ekki verið fleiri síðan 11. janúar. Sjúklingum með COVID hefur fjölgað um tvo frá því í gær, þeir eru nú 37. Áfram eru þrír á gjörgæsludeild og hefur sú tala haldist óbreytt frá 18. janúar.

Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar var gestur í Vikulokunum á Rás 1 nú fyrir hádegið. Þar sagði hann breytingar vera í faraldrinum með omikrón afbrigðinu, það valdi ekki COVID-19 heldur alt öðrum sjúkdómi. Hann segir að þrátt fyrir það séum við ekki á villigötum í aðgerðum. Daglega greinist um fimmtíu manns daglega með delta afbrigðið og þó svo omikrón sé ráðandi, greinist engu að síður þessi fjöldi með delta afbrigðið, sem sé mjög illvígt. Okkur hafi tekist að feta skynsamlegan milliveg í aðgerðum.

„Ég held að við höfum verið mjög heppin með hvernig við höfum höndlað þetta fram til dagsins í dag, en þetta er að breytast og gögnin sýna okkur að við höfum fulla ástæðu til þess að endurskipuleggja þetta og ég yrði ekkert hissa á því að innan skamms tíma þá yrði hætt að nota sóttkví og einangrun, eða að minnsta kosti að nota það mjög lítið,“ segir Kári Stefánsson.

Það mætti hugsa sér að skynsamlegt væri að vera með smitrakningu hjá þeim sem eru með delta afbrigðið, en með færri skimunum þá næðist ekki til fleiri eða allra sem greinast með delta.  Aðspurður hverjar ráðleggingar hans til stjórnvalda væru, væri hann sóttvarnalæknir sagði Kári.

„Ég er svo heppinn að ég er ekki sóttvarnalæknir og þess vegna þarf ég ekki að gefa ráðleggingar sem sóttvarnalæknir og þess vegna ætla ég ekki að gera það.“

   
 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV