Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

„Eins og á hengiflugi ótta og hryllings“

22.01.2022 - 20:10
Mynd: SKY NEWS / AP
Hernaðarbrölt Rússa við landamæri Úkraínu heldur áfram og í dag sendu Bandaríkjamenn hátt í 100 tonn af hergögnum til Úkraínu í dag. Þetta er eins og að vera á hengiflugi ótta og hryllings, segir maður sem býr í norð-austurhluta Úkraínu.

Rússneskar orrustuþotur tóku á loft frá Hvíta-Rússlandi í morgun og héldu til heræfinga nærri landamærum Úkraínu þar sem tugir þúsunda rússneskra hermanna hafa sett upp búðir. Á sama bárust um 90 tonn af hergögnum frá Bandaríkjamönnum til Úkraínu. Ýmislegt bendir því til að koma muni til átaka á næstunni. 

NATO hyggst ekki að ganga að kröfum Rússa

Vestræn ríki segja Rússa eiga sökina. Þeir hafi skapað spennu á svæðinu með því að senda þangað herafla og framkvæmt netárásir. Að auki sýni sagan að Rússar veigri sér ekki við að ráðast inn í Úkraínu. Rússar innlimuðu Krím-skagann árið 2014 og síðan þá hafa geisað átök í austurhluta Úkraínu og að minnsta kosti 14 þúsund hafa fallið í þeim. 

Úkraína er fyrrum sovétríki og hefur sterk félags- og menningarleg tengsl við Rússland. En eftir innlimun Krím-skagans hefur stuðningur við aðild að Atlandshafsbandalaginu aukist í Úkraínu. Meira en helmingur landsmanna vill ganga í NATO en Rússar eru ekki hrifnir af því. Rússar hafa í raun sett það beinlínis sem kröfu að Úkraína fái ekki aðild að NATO. Aðrar kröfur Rússa eru að NATO hætti heræfingum í Austur-Evrópu og dragi bæði vopn og herlið á sínum vegum úr ríkjum sem fengu aðild að bandalaginu eftir árið 1997.

Mynd með færslu
 Mynd: Geir Ólafsson - RÚV
Rússar vilja herlið og vopn burt úr ríkjum sem fengu aðild eftir 1997.

Á þessu korti hér að ofan má sjá aðildaríki NATO í Evrópu. Þau blámerktu fengu aðild fyrir ´97 og þau sem eru gulmerkt eru ríkin sem gengu í bandalagið eftir þann tíma. 

NATO hyggst ekki gangast að þessum kröfum. Rússar þvertaka fyrir að eiga upptökin að þessari spennu. Þeir líta svo á að þeir hafi öldum saman þurft að þola árásir úr vestri og að NATO sé starfrækt þeim til höfuðs. Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, ætlar að eyða helginni í Camp David ásamt þjóðaröryggis-ráðgjöfum og Anthony Blinken utanríkisráðherra. Lítill árangur varð af fundi hans og Sergey Lavrov utanríkisráðherra Rússlands í gær en þeir sögðust þó ætla að ræða saman aftur.

Á meðan vofir hættan á átökum enn yfir íbúum í Úkraínu. „Eins og á hengiflugi einhvers ótta og hryllings. Og ég get því sagt að ég sér hræddur,“ segir Victor Pichugin, sem býr í Kharkiv í norð-austurhluta Úkraínu. „Úkraína er friðsemdarþjóð. En reyni einhver að ræna okkur frelsinu aftur þá berjumst við á móti,“ segir Yulia Napolska sem einnig býr í Kharkiv.