Rússneskar orrustuþotur tóku á loft frá Hvíta-Rússlandi í morgun og héldu til heræfinga nærri landamærum Úkraínu þar sem tugir þúsunda rússneskra hermanna hafa sett upp búðir. Á sama bárust um 90 tonn af hergögnum frá Bandaríkjamönnum til Úkraínu. Ýmislegt bendir því til að koma muni til átaka á næstunni.
NATO hyggst ekki að ganga að kröfum Rússa
Vestræn ríki segja Rússa eiga sökina. Þeir hafi skapað spennu á svæðinu með því að senda þangað herafla og framkvæmt netárásir. Að auki sýni sagan að Rússar veigri sér ekki við að ráðast inn í Úkraínu. Rússar innlimuðu Krím-skagann árið 2014 og síðan þá hafa geisað átök í austurhluta Úkraínu og að minnsta kosti 14 þúsund hafa fallið í þeim.
Úkraína er fyrrum sovétríki og hefur sterk félags- og menningarleg tengsl við Rússland. En eftir innlimun Krím-skagans hefur stuðningur við aðild að Atlandshafsbandalaginu aukist í Úkraínu. Meira en helmingur landsmanna vill ganga í NATO en Rússar eru ekki hrifnir af því. Rússar hafa í raun sett það beinlínis sem kröfu að Úkraína fái ekki aðild að NATO. Aðrar kröfur Rússa eru að NATO hætti heræfingum í Austur-Evrópu og dragi bæði vopn og herlið á sínum vegum úr ríkjum sem fengu aðild að bandalaginu eftir árið 1997.