Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Val á fjárfestum í Íslandsbanka stóra spurningin

21.01.2022 - 18:53
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd - RÚV
Stóra spurningin er hvernig fjárfestar sem fá að bjóða í Íslandsbanka verða valdir, segir sérfræðingur í fjármálum. Bankasýsla ríkisins segir tilboðsleið eiga að tryggja hæsta verð en orsaka minna gegnsæi.Einnig sé óvíst hver staða erlendra fjárfesta sé þegar innviðir á borð við banka eru annars vegar.

Bankasýsla ríkisins lagði í gær fram tillögu til fjármála- og efnahagsráðherra um að stofnunin fengi heimild til að selja allan eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka. Bankasýslan leggur til fjórar leiðir við söluna. Í fyrsta lagi tilboðsfyrirkomulag. Sala með slíku fyrirkomulagi færi fram á einum til tveimur dögum og ákveðnum fjölda fjárfesta gefinn kostur á að bjóða í, en almenningi ekki með beinum hætti. Þetta fyrirkomulag ætti að tryggja hæsta verð og telur Bankasýslan þessa leið besta til að uppfylla forgangsmarkmið sölumeðferðar um hagkvæmni.

Önnur leið væri fullmarkaðssett útboð sem væri opið útboð til almennra og hæfra fjárfesta og tæki nokkra daga. Kostur slíkrar leiðar sé opnara og gegnsærra ferli en tilboðsleiðin. Síðan er nefnd miðlunaráætlun þar sem verðbréfafyrirtæki fái fyrirmæli um sölu ákveðins fjölda hluta, þess gætt að ofgera ekki markaðnum og þá reynt að vera sem næst markaðsverði. Fjórða leiðin væri svo útgáfa skiptanlegra skuldabréfa.

Ásgeir Brynjar Torfason sérfræðingur í fjármálum segir tilboðsleiðina henta til að fá sem hæst verð, en á móti komi að almenningur fái ekki tækifæri til að vera með aftur. Verðið hafi hækkað frá í fyrra, en þessi leið þýði minna gagnsæi.

„Þannig að það sem er kannski stærsta spurningin er hvernig verða þeir fagfjárfestar valdir sem fá að taka þátt og þá horfum við mikið til lífeyrissjóðanna okkar, þá erum við í rauninni að færa þetta úr almenningseign ríkisins í almenningseign lífeyrissjóðanna. Það getur verið fín leið út úr þessu og til að létta undir með ríkissjóði núna eftir covid árangurinn.“

Þá sé spurning um stöðu erlendra fjárfesta.

„Jafnvel hvort að komi þá til eins og með innviðina hjá fjarskiptafyrirtækjunum, sem er fyrirhugað frumvarp, að ríkisstjórnin geti haft um það að segja hvaða erlendu fjárfestar kaupi í mikilvægum grunninnviðum og peningakerfið, bankarnir og greiðslumiðlunarkerfið er náttúrlega mikilvægur grunninnviður.“

Mikill áhugi var hjá erlendum fjárfestum í fyrra, enda var það frumútboð.

„En það er erfitt að segja núna hvort að það sé. Ég held að það væri kannski æskilegast, af því að þetta er okkar sameiginlega eign þessi banki að koma honum í sameiginlega eign okkar lífeyrissjóða, þannig að þetta ta  pist ekki til einhverra eigenda langt í burtu sem að í ótryggum heimi sem er kannski óvíst að vita hugmyndir hafa um eignarhald í banka í litlu landi.“

Tímaseting útboðsins í fyrra var gagnrýnd, en Ásgeir Brynjar segir að núna styttist í að heimsfaraldrinum ljúki og tímasetningin komin ekki á óvart enda í stjórnarsáttmála og fjárlögum. Máliði komi síðan til kasta Alþingis.

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV