Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Konungsríki í öskufalli

21.01.2022 - 09:32
Mynd: Wikipedia / Wikipedia
Sprengigosið á Tongaeyjum í Kyrrahafi er hið stærsta á jörðinni síðastliðin 30 ár að mati jarðvísindamanna. Þegar gosið hófst með gríðarlegum hvelli á laugardag fylgdi flóðbylgja og mikið öskufall sem hefur haft mikil áhrif á daglegt líf íbúa eyríkisins. Þeir eru einangraðir, öll samskipti við umheiminn eru erfið og óttast er að marga daga og vikur taki að rjúfa þá einangrun að fullu.

Hjálpargögn berast 

Á meðan er óljósar fréttir að fá af líðan þeirra og þörf fyrir hjálpargögn.  Þau eru þó farin að berast því flugvélar frá bæði Ástralíu og Nýja Sjálandi hafa síðastu sólarhringa lent á stærstu eyjunni Tonagatapu með neyðarbúnað.  Það gekk þó ekki þrautalaust fyrir sig því þykkt öskulag lá yfir flugvellinum í höfuðstaðnum Nukualofa og þurftu heimamenn að hreinsa flugbrautina með handskóflum og hjólbörum.

Reyna að forðast Covid smit

Þar sem íbúar Tongaeyja hafa sloppið við Covid faraldurinn þá var lögð áhersla á að engin bein samskipti yrðu á milli áhafna vélanna og heimamanna. Ekki væri á það bætandi að Covid faraldur bættist við þær hörmungar sem fyrir eru. Vatnsskortur er á eyjunum, en von var á tank- og hjálparskipi frá Nýja Sjálandi í gær með birgðir til að slá á brýnustu þörfina. Staðfest hefur verið að þrír hafi farist í flóðbylgjunni. 

Þúsundir eyja á Kyrrahafi

Tongaeyjar tilheyra einum af þremur eyjaklösum Kyrrahafsins, Pólínesíu. Hinir eru Míkronesía og Melanesía. Á Kyrrahafi, stærsta úthafi heims, eru á milli 20 og 30 þúsund eyjar sem flestar líta út eins og títuprjónshausar á landakorti, aðrar sjást varla.

Segja má að aðeins tvær stórar eyjar tilheyri þessum eyjaklösum; Nýja Sjáland og Nýja Gínea. Hinar eru mislitlar og misþekktar. Þekktastar eru væntanlega Havaí, Tahití, Samóaeyjar og Fídjieyjar.  En á mörgum þessara eyja, sem virka kannski eins og krækiber á ónefndum stað og eru framandi í augum okkar Íslendinga, býr fólk með sína menningu og sögu. 

100 þúsund íbúar

Tongaeyjar eru um 170 talsins, flestar óbyggðar, en búið er á 36 eyjum. Þær liggja í um 2400 kílómetra fjarlægð norðaustur af Nýja Sjálandi og um 800 kílómetrum suðaustur af Fídji eyjum. Rúmlega 100 þúsund manns búa á þessum 36 eyjum, langflestir á stærstu eyjunni Tongapatú, eða 75 þúsund manns.

Sprengigosið varð í eldfjalli 60 kílómetrum frá Tongapatú og því má nærri geta hvort íbúum hafi ekki orðið hverft við á laugardaginn. Eldfjallið Hunga-Tonga-Hunga-Ha'apai er nær allt neðansjávar en toppur fjallsins náði þó upp fyrir sjávarmál þegar atburðurinn varð. 

Kristið konungsríki

Tonga er sjálfstætt ríki, konungsríki innan breska samveldisins. Íbúarnir eru nær allir frumbyggjar af pólínesískum uppruna, en þó hefur fólk af evrópskum uppruna flutt í vaxandi mæli til ríkisins eftir 1970 og blandast frumbyggjum. Íbúarnir eru kristnir, um þriðjungur eru methódistar, fimmtungur mormónar, kaþólikkar eru þó nokkrir, en aðrar kirkjudeildir eru minni.

Flestir búa í dreifbýli

Aðaltungumálið er frumbyggjamál, sem kennt er í skólum, en enska er útbreidd þar sem Tonga var breskt verndarsvæði allt til ársins 1970, þegar landið fékk fullt sjálfstæði. Flestir íbúar, nálægt 80%,  búa í dreifbýli eða litlum þorpum og hafa lífsviðurværi sitt af alls kyns ræktun, m.a. kókoshnetum, banönum og vatnsmelónum.

Á Tonga er samfélag með nokkuð sterka innviði í skólum,  samgöngum og heilbrigðiskerfi.  Kóngurinn og ríkisstjórnin fara með völdin í svokölluðu heimaráði en á þingi sitja 26 þingmenn. Útibú frá Suður Kyrrahafsháskólanum er í höfuðstaðnum Nukualofa. 

Þrjú þúsund ára gömul byggð

Mannvistarleifar frá því 1000 fyrir Krist hafa fundist á Tonga og vitað er að kóngar og drottningar réðu þar ríkjum frá 10. öld. Hollenskir landkönnuðir komu fyrstir Evrópumanna til Tonga snemma á 17. öld, en fyrstu föstu samskipti Evrópumanna hófust ekki fyrr en í kjölfar komu James Cooks landkönnuðar og kapteins í breska sjóhernum seint á 18. öld.  

Cook kallaði eyjarnar Vináttueyjar vegna þess að hann hreyfst svo af gestrisni eyjaskeggja. Síðar kom reyndar í ljós að þeir plottuðu um að drepa Cook og hans menn, en komu sér ekki saman um hvernig og ekkert varð úr áformunum.

Sjálfstætt ríki innan breska samveldisins

Árið 1845 nær maður að nafni Taufahau völdum og hann lætur krýna sig til konungs undir nafninu Georg Tupou fyrsti. Hann þótti farsæll þjóðhöfðingi til ársins 1893, sameinaði eyjarnar undir eina stjórn, samdi stjórnarskrá og mótaði stjórnkerfið. Stórveldin Þýskaland, Bretland og Bandaríkin viðurkenndu sjálfstæði Tonga árið í lok 19. aldar.

Sonarsonur Georgs, Georg annar, tók við og ríkti til 1918. Undir hans stjórn varð Tonga að bresku verndarsvæð, aðallega til að verjast ágangi Þjóðverja, en hélt sínu sjálfstæði. Í kjölfarið fylgdu Solutu Tupou drottning og nokkrir kóngar og nú er þar við völd Georg Topou sjötti. 

 

kristjas's picture
Kristján Sigurjónsson
Fréttastofa RÚV