Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Fagna frumvarpi um bann við bælingarmeðferðum

21.01.2022 - 17:17
Mynd með færslu
Þorbjörg Þorvaldsdóttir, formaður Samtakanna ´78.  Mynd: Kristín María - Aðsend mynd
Samtökin 78 fagna nýju frumvarpi sem myndi gera svokallaðar bælingarmeðferðir refsiverðar. Formaður samtakanna segir slíkar meðferðir stundaðar á laun hér á landi.

Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar, er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins en að því standa einnig ellefu aðrir þingmenn Pírata, Samfylkingar, Vinstri grænna og Flokks fólksins. 

Fimm ára fangelsi

Ef frumvarpið verður samþykkt yrði allt að fimm ára fangelsi við því að láta barn undirgangast meðferð í þeim tilgangi að bæla eða breyta kynhneigð, kynvitund eða kyntjáningu og þriggja ára fangelsi í tilfelli fullorðins. Allt að tveggja ára fangelsi yrði við því að hvetja til, standa að eða þiggja fé fyrir slíkar meðferðir.

„Það er bara mjög mikilvægt vegna þeirra alvarlegu afleiðinga sem svona brot á sjálfræði fólks hefur að þetta sé undir hatt slíkra brota í hegningarlögunum okkar, það er ekki þar. Þannig það verði heildstætt bann við þessari fornaldarhyggju,“ sagði Hanna Katrín í Síðdegisútvarpinu á Rás 2.

Segir bælingarmeðferðir stundaðar á Íslandi

Þorbjörg Þorvaldsdóttir, formaður Samtakanna 78, segist vona að frumvarpið nái fram að ganga. 

„Við fögnum þessu frumvarpi mjög. Þetta er löngu tímabært frumvarp og akkurat í takt við það sem við höfum kallað eftir, “ segir Þorbjörg.

Bælingarmeðferðir séu stundaðar á Íslandi en leynt sé með þær farið.

„Þær hafa ekki vakið athygli á undanförnum árum þótt það séu nokkur fræg dæmi frá því á árum áður. Við vitum að þetta er stundað en þetta fer rosalega leynt. Ég held að umfangið sé ekki mikið en það er nóg að ein manneskja lendi í þessu. Fólk þarf að geta leitað réttar síns,“ segir Þorbjörg enn fremur.

Þórgnýr Einar Albertsson