Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Ekkert ferðaveður á stórum hluta landsins

21.01.2022 - 19:46
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Veðurstofu Íslands
Appelsínugul viðvörun vegna veðurs tók gildi á Breiðafirði klukkan 18 og á Vestfjörðum, Ströndum og Norðurlandi vestra klukkutíma síðar. Veðurstofa segir ekkert ferðaveður á svæðinu en viðvaranirnar falla ekki úr gildi fyrr en seinni partinn á morgun.

Við Breiðafjörð má búast við snjókomu eða rigningu og síðar éljum með lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum. Vindhviður yfir 40 metra á sekúndu.

Á Vestfjörðum er vindur álíka mikill og akstursskilyrði sömuleiðis vond vegna lélegs skyggnis og sömu sögu er að segja af veðri á Ströndum og Norðurlandi vestra.

Þá tók gul viðvörun vegna veðurs gildi við Faxaflóa klukkan 18 og er ferðaveður sagt varasamt. Sams konar viðvaranir taka gildi á Norðurlandi Eystra, Austfjörðum, Austurlandi að Glettingi og á Miðhálendinu síðar í kvöld.

Holtavörðuheiði hefur nú verið lokað vegna veðurs, segir í tilkynningu Vegagerðarinnar. Bröttubrekku hefur sömuleiðis verið lokað.

 

Þá sagði Vegagerðin fyrr í kvöld hugsanlegt að fyrr komi til lokana á Öxnadalsheiði en gert hafði verið ráð fyrir.

Uppfært kl. 21:50.

Þórgnýr Einar Albertsson