Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Afnema aðgerðir ef mótefnarannsókn sýnir útbreitt ónæmi

21.01.2022 - 13:00
Mynd: Grímur Jón Sigurðsson / RÚV
Heilbrigðisráðherra bindur vonir við að hægt verði að aflétta samkomutakmörkunum fyrr en áætlað er, ef rannsókn Íslenskrar erfðagreiningar leiðir í ljós að fleiri séu ónæmir fyrir veirunni en vitað er um. Smitum heldur áfram að fjölga í samfélaginu, þrátt fyrir hertar aðgerðir, en staðan á Landspítala er betri en óttast var.

„Það eru að verða breytingar á eðli faraldursins, breytingarnar eru þær að smitin eru mjög mörg, innlagnahlutfallið er að fara niður með þessu nýja afbrigði og það vekur mér mjög mikla bjartsýni að sjá þetta raungerast sem við höfum verið að sjá annars staðar.“

Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í viðtali við Hólmfríði Dagnýju Friðjónsdóttur fréttamann að loknum ríkisstjórnarfundi fyrir stundu. Hlutfallslega færri hafa þurft að leggjast á spítala vegna omíkron en vegna annarra afbrigða kórónuveirunnar.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, vísinda- iðnaðar og nýsköpunarráðherra, segir óþarfi að bíða frekari gagna um þróun faraldursins og vill létta á samkomutakmörkunum. Gildandi samkomutakmarkanir renna að óbreyttu út 2. febrúar. 

„Við tökum stundum hraðar ákvarðanir til að herða og þá má líka taka hraðar ákvarðanir til að ganga til baka. Það þurfa ekki að liggja fyrir gögn, og aukin gögn og bíða eftir þeim til þess að aflétta. Heldur þurfa að vera gögn hverju sinni til þess að viðhalda takmörkunum áfram,“ segir Áslaug Arna.

Ekki hefur verið eining innan ríkisstjórnarinnar með viðbrögðin við faraldrinum og fleiri úr röðum Sjálfstæðisflokksins hafa bent á að tímabært sé að breyta um kúrs í ljósri breyttrar stöðu. Þar á meðal Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra. „Ég hef mínar skoðanir á því, bara almennt um það hvernig við tökum þessi skref út,“ segir Þórdís Kolbrún. „En það er enginn ágreiningur um það að standa vörð um það að spítalinn geti sinnt sínu hlutverki.“

Snýst um mönnunarvanda á Landspítala

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra segir að núna snúist þetta að miklu leyti um mönnunarvanda á Landspítalanum, þar sem margir starfsmenn séu í einangrun með covid.

„Þetta snýst núna mikið til um það að heilbrigðiskerfið ráði við stöðuna. Við erum með spítalann á neyðarstigi, við erum með heilbrigðiskerfið á neyðarstigi almannavarna,“ segir Willum.

Hann bindur vonir við að hægt verði að aflétta aðgerðum fyrr en áætlað er og afnema neyðarstig almannavarna, ef niðurstaða rannsóknar Íslenskrar erfðagreiningar leiðir í ljós að fleiri séu ónæmir fyrir veirunni en vitað er um.