„Versta símtal sem hann hefur þurft að hringja“

Mynd: RÚV / RÚV

„Versta símtal sem hann hefur þurft að hringja“

20.01.2022 - 11:26

Höfundar

„Maður brotnaði algjörlega saman og ég grét alla leiðina heim,“ segir Þórhalla Arnardóttir kennari sem var stödd með nemendahóp í Kraká þegar hún fékk örlagaríkt símtal frá eiginmanninum. Yngri bróðir hennar hafði lent í fallhlífarslysi og látist.

Þórhalla Arnardóttir kennari var stödd í Kraká með hóp af nemendum úr Verslunarskóla Íslands þegar maðurinn hennar hringdi og tilkynnti henni að bróðir hennar, Örvar Arnarson fallhlífarstökkvari, hefði látist í hræðilegu slysi. Þórhalla er gestur Sigurlaugar Margrétar Jónasdóttur í þættinum Okkar á milli í kvöld. Hún segir frá bróður sínum og þessum örlagaríka degi þegar hún missti hann.

Mynd með færslu
 Mynd: Þórhalla Arnardóttir - Aðsend
Örvar var ævintýragjarn rólyndismaður

Hafði frá ýmsu að segja en var ekki að trana sér fram

Örvari lýsir hún sem þægilegu barni. Hann var rólegur og yfirvegaður, mikill íþróttamaður og stundaði fimleika af kappi. Á fullorðinsárum var hann áfram rólyndismaður sem ekki var mikið að trana sér fram nema þegar hann fékk sér aðeins í glas, þá var hann gjarnan hrókur alls fagnaðar.

„Hann talaði þá hátt og mikið, sagði skemmtilega frá og hafði frá mörgu að segja því hann upplifði rosalega mikið og gerði margt á sinni fjörutíu ára ævi,“ segir Þórhalla. Örvar var enda ævintýragjarn fallhlífarstökkvari sem fór í mörg ferðalög, meðal annars á Kilimanjaro. Systkinin voru afar náin enda Þórhalla eldri og dugleg að passa upp á litla bróður, líka á fullorðinsárum.

Grét alla leiðina heim

Það var mikið reiðarslag að fá fregnir um að hann væri farinn. Hún var sem fyrr segir stödd í Kraká þegar símtalið barst. „Maðurinn minn hringir í mig og þetta er versta símtal sem hann hefur þurft að hringja. Maður brotnaði algjörlega saman og ég grét alla leiðina heim.“

Hinir kennararnir sáu um að passa Þórhöllu og redda málunum

Þórhalla segir að hinir kennararnir í ferðinni hafi strax farið af stað með aðgerðaáætlun. „Það er eins og það hafi farið maskína í gang. Þau voru ofboðslega öflug kennararnir sem voru með mér,“ segir hún. Einn þeirra fór að tala við nemendur, einn pantaði flugfar fyrir hana heim á meðan sá þriðji hélt utan um Þórhöllu og sinnti henni.

Gleymir ekki gæsku flugfreyjunnar

Ferðalagið var Þórhöllu afar erfitt og hún minnist þeirrar gæsku sem hún mætti hjá starfsfólki, sérstaklega einnar flugfreyju sem heitir Hrefna Hrólfsdóttir. „Hún sá hvað mér leið illa,“ rifjar Þórhalla upp. „Hún tekur mig til hliðar og passaði upp á mig og sinnti mér svo vel. Þá uppgötvaði maður svo mikla elsku og væntumþykju. Fólk er gott í grunninn.“

Okkar á milli er á dagskrá á RÚV í kvöld klukkan 21:30 eftir leik Íslands og Danmerkur í handbolta.