
Jónas Þór hefur lengi starfað sem lögmaður auk þess sem hann hefur setið í hinum ýmsu stjórnum og ráðum. Hann var formaður kjararáðs um fjögurra ára skeið og komst í fréttirnar eftir kosningar 2016. Þá var hann jafnframt formaður kjörstjórnar í Suðvesturkjördæmi. Sama dag og kosningarnar fóru fram tók kjararáð umdeilda ákvörðun um að hækka laun ráðherra og þingmanna. Jónas er stjórnarformaður Landsvirkjunar.
Oddný Mjöll hefur verið dómari við Landsrétt frá því hann tók til starfa í ársbyrjun 2018. Hún hefur tekið sæti sem varadómari Íslands í máli við Mannréttindadómstól Evrópu. Hún hefur meðal annars starfað sem prófessor við Háskólann í Reykjavík og Háskóla Íslands.
Stefán Geir hefur starfað sem lögmaður um nærri 30 ára skeið auk þess sem hann hefur sinnt stundakennslu og setið í ýmsum stjórnum. Þá var hann skipaður dómari við Alþjóðlega íþróttadómstólinn árið 2017, fyrstur Íslendinga. 2017 greindi Stundin frá því að Ragnhildur Ágústsdóttir hefði kært Stefán Geir og Jóhann Óla Guðmundsson kaupsýslumann til lögreglu fyrir frelsissviptingu og sagði þá hafa neitað að hleypa sér út úr herbergi fyrr en hún skrifaði undir uppsögn sem forstjóri Tals. Kærunni var vísað frá.