Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Mikil fjölgun smita í „faraldri barnanna“ kom á óvart

20.01.2022 - 07:59
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Þór Ægisson - RÚV
Smitum fjölgaði um næstum helming á tveimur dögum, þrátt fyrir hertar sóttvarnaaðgerðir. Prófessor í líftölfræði segir þetta hafa komið á óvart. Aukningin geti ekki talist sem eðlilegt frávik. Hann segir að faraldurinn nú sé að vissu leyti faraldur barnanna.

Mun hærri smittölur en spáð hafði verið

Mesta útbreiðslan á smitum í samfélaginu er nú hjá börnum á grunnskólaaldri, allt að helmingur smita. Þegar aðgerðir voru hertar í samfélaginu síðastliðinn föstudag voru ekki gerðar frekari takmarkanir á skólastarfi. Thor Aspelund, líftölufræðingur, segir að faraldurinn virðist drifinn áfram af smitum meðal barna.

„Spáin var áfram á svipuðum nótum, þetta 1.100 plús/mínus, þannig að þetta er í hærri kantinum og eiginlega alveg marktækt frávik, þannig að það er augljóslega aukinn kraftur í smitum meðal barna og einhverjar aðrar skýringar,“ segir Thor. „Það þyrfti kannski að leggjast í það að skoða betur þennan sem mætti bara kalla sérstakan faraldur meðal barna.“

Fram kom á upplýsingafundi almannavarna í gær að um eða yfir 90% smita væru af völdum omíkron-afbrigðisins. Allt bendir til þess að mun lægra hlutfall þeirra sem smitast af omíkron þurfi að leggjast inn á spítala, en af delta-afbrigðinu, og alvarleg veikindi eru fátíð meðal barna.

Skýrist á næstu dögum hvort faraldurinn sé í vexti

Thor bendir á að oftast séu færri sýnatökur um helgar og svo komi bakslag í smittölur eftirþað. Þessi aukning nú sé þó óvenju mikil. „Þetta er meira en það, meira en maður hefði búist við,“ segir Thor. Hann segir ekki tímabært að segja til um hvort faraldurinn sé í veldisvexti.

„Það tekur alveg nokkra daga að fá staðfestingu á svoleiðis breytingu,“ segir Thor. Þetta skýrist betur í lok vikunnar, ef smittölurnar fara ekki niður eða halda áfram að hækka . „Já, í lok vikunnar, þá getur maður sagt hvort það sé komið merki um nýjan vöxt, nýja bylgju ofan í bylgjuna.“