Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Hvetur landsmenn til að þiggja bestu vörn gegn COVID-19

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Útgáfu bólusetningavottorða eftir einn skammt af bóluefni Janssen við kórónuveirunni verður hætt um mánaðamótin. Sóttvarnalæknir segir að fljótlega hafi orðið ljóst að full bólusetningi náðist ekki með einum skammti af Janssen. Bólusetningavottorð Evrópusambandsins gilda þó enn á landamærunum.

„Við gáfum það út í haust að við litum á Janssen bólusetningu sem eina með hinum bóluefnunum. Efnið var markaðsett eins og full bólusetning næðist með einum skammt. Það varð fljótt ljóst að erfitt var að standa við það,“ segir Þórólfur í samtali við fréttastofu. 

Því hafi verið litið á bólusetningu sem eina bólusetningu. Nýleg tilskipun bindur Evrópusambandsríki til að taka á móti vottorðum eftir eina Janssen bólusetningu í 270 daga.

Telur Íslandi heimilt að setja eigin reglur

Þórólfur segist telja að Íslandi sé heimilt að setja eigin reglur sem byggi á faglegum rökum og mati en að vottorð Evrópusambandsins varðandi Janssen gildi á landamærunum. 

„Þegar við erum að tala um hvatningu til fólks innanlands að verða sér úti um bestu vörn erum við að tala um þrjár bólusetningar. Það er svona samhljóða því sem er að gerast í löndum þar sem Janssen hefur verið notað.“

Þórólfur segir mörg ríki hafa ákveðið að nota ekki Janssen bóluefnið, til dæmsi löndin hin Norðurlöndin gerðu það ekki. Þórólfur segir bólusetningapassa ekki hafa mikið verið notaðan á Íslandi. 

„Þeir sem eru með tengsl hér innanlands, hvort sem þeir eru bólusettir eða ekki eru beðnir að fara í eina sýnatöku. Aðrir sem eru fullbólusettir þurfa ekki að fara í sýnatöku. Allir sem eru óbólusettir þurfa að fara í sýnatöku og sóttkví og svo aftur eftir fimm daga í aðra sýnatöku.“

Enn er litið er á bólusetningu með Jansen sem fullgilda bólusetningu á landamærunum. 

Mælir ekki með upptöku bólusetningavottorða innanlands

Þórólfur segir upptöku bólusetningavottorðs innanlands hafa verið rædda. Hann segir sitt mat vera að fagleg rök þurfi að vera fyrir því að beita einhvers konar mismunun vegna bólusetningarstöðu fólks.

Önnur rök sem ekki snerti sóttvarnalækni geti komið upp, pólítísk, siðferðileg og lögfræðileg geti verið fyrir upptöku bólusetningarpassa innanlands. Þórólfur segir að vilji einhver taka upp bólusetningapassa sem gefi aukin réttindi sé það stjórnvalda að ákveða það. 

„Ég lít fyrst og fremst til faglegra raka á þeim grunni hvort þrjár eða tvær bólusetningar verndi viðkomandi virkilega. Eru þær virkilega að koma í veg fyrir smit? Það finnst mér forsenda fyrir því að beita einhvers konar mismunun milli bólusetninga og óbólusettra.“

Þórólfur segir nú mega sjá að miklu sterkari fagleg rök hefðu verið fyrir upptöku passa meðan delta-afbrigðið var ráðandi. 

„Við sáum að örvunarskammturinn var mjög góður til að koma í veg smit og fólk smitaði miklu verr út frá sér og tók síður smit. Það er ekki svo með omíkron, það verndar ekki eins vel eins og gegn delta.“

Þá séu rökin fyrir bólusetningarpassa veikari nú.  

Vel fylgst með andlegri líðan í faraldrinum

Þórólfur segir embætti landlæknis hafa fylgst með rannsóknum varðandi geðheilsu og andlega líðand. Í uppgjöri frá miðstöð lýðheilsuvísinda við Háskóla Íslands hafi komið fram að andlegri fólks og barna hafa hrakað.

Það var ekki hvað síst tengt Covid-sýkingunni.  Ef að COVID greindist hjá nánum ættingjum sem hafði áhrif á andlegu heilsuna. Það eru ekki bara þessar aðgerðir sem fólk er að tala um að séu svo slæmar. Það eru ekki síður Covid-veikindin hjá fólkinu sjálfu og svo eins nánum ættingjum.