Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

„Ég á nú vart orð til að lýsa þessu satt að segja“

Mynd: EPA / EPA

„Ég á nú vart orð til að lýsa þessu satt að segja“

20.01.2022 - 18:36
„Ég á nú vart orð til að lýsa þessu satt að segja. Þetta hefur því miður þróast á versta veg fyrir okkur og þetta eru náttúrulega allt lykilmenn í liðinu sem eru dottnir út og það gerir okkar stöðu mjög erfiða,“ segir Guðmundur Guðmundsson, þjálfari karlalandsliðsins í handbolta, um stöðuna hjá íslenska liðinu.

Sex leikmenn liðsins hafa greinst með kórónuveiruna síðasta sólarhringinn. Guðmundur segist hafa fundað tvisvar með leikmönnunum í dag en alltaf hafi hlutirnir breyst og því þurft að breyta plönum. „Við erum bara að reyna púsla þessu saman hvernig við ætlum að leysa þetta allt saman. En við erum allir staðráðnir í því að gera það besta úr þessu og sýna úr hverju við erum gerðir en það er ekkert launungamál að þetta er brekka,“ segir hann.

Orri Freyr Þorkelsson er eini vinstri hornamaðurinn í hópnum núna. „Við verðum með Orra í vinstra horni og við munum væntanlega byrja leikinn með Elvar Ásgeirsson vinstra megin og Janus Daða á miðjunni. Við munum líka mögulega spila með örvhenta leikmenn á miðjunni, í miðjustöðunni og það eru þá Viggó og Ómar sem munu leysa það þannig,“ segir Guðmundur.

„Þetta verður hörkuverkefni en við ætlum að gera allt sem við eigum, það er engin spurning með það. Það þarf að fara í þetta af ákveðnu æðruleysi og sýna úr hverju við erum gerðir. Það sem er búið að vera erfitt í dag eru þessar stöðugu fréttir og að fá svo Gísla Þorgeir í viðbót, því við vorum búnir að leggja upp leikinn með hann í liðinu,“ segir Guðmundur. „Það sem við erum svekktir með eru auðvitað þessi aðbúnaður okkar, við erum búnir að vanda svo rosalega til verka sjálfir og svo komum við inn á hótel þar sem þessir hlutir eru ekki í lagi,“ segir Guðmundur að lokum.