Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

„Biden hefur ekki þá ímynd að vera orkumikill forseti“

20.01.2022 - 18:02
Joe Biden Bandaríkjaforseti er með óvinsælli forsetum sögunnar eftir ár í embætti en segist hafa afrekað meira en búast hefði mátt við. Friðjón Friðjónsson almannatenginn, sem fylgist vel með bandarískum stjórnmálum segir valdatíð Bidens verða erfiða, rétt eins og þetta ár sem nú er liðið síðan hann tók við embættinu. 

Joe Biden gaf stór fyrirheit við upphaf valdatíðar sinnar - að sameina þjóðina, sigrast á kórónuveirufaraldrinum og efla efnahagslífið. „Að sameina þjóðina hefur ekki tekist, að sigrast á faraldrinum hefur ekki tekist, og almennt séð er þetta búið að vera mjög erfitt ár,“ segir Friðjón. Biden sagði sjálfur á blaðamannafundi í gærkvöld að hann hefði ekki lofað of miklu, hann hefði líklega gert meira en búist hafi verið við.

Enginn forseti Bidens mælst jafn óvinsæll eftir eitt ár í embætti, nema Donald Trump forveri hans. „Biden hefur ekki á sér þá ímynd að vera orkumikill forseti. Hann er náttúrulega orðinn gamall og hann hefur elst ofboðslega mikið á þessu eina ári,“ segir Friðjón.

Afganistan upphafið af óvinsældunum

Brottflutningur herliðsins frá Afganistan, sem endaði á að Talibanar náðu hratt völdum, var í raun upphafið af óvinsældum Bidens. Friðjón segir gagnrýnina sem hann fékk þar óverðskuldaða að hluta, þar sem hann var aðeins að fylgja áætlun fyrri ríkisstjórnar. En... „hann sagði: Kabúl mun ekki falla á fáeinum vikum. Sem hún svo gerði. Það bendir til þess að hann sé ekki í tengslum við veruleikann og hvernig hlutirnir munu þróast og er að fá slæmar upplýsingar. Það er dauðasök fyrir forseta Bandaríkjanna.“

Biden varði í gærkvöld meðhöndlun sína á brottflutningnum þannig að það hefði aldrei verið auðvelt að flytja herliðið á brott, sama hvenær það hefði verið gert.

Friðjón segir Biden hafa komið á ýmsum efnahagsumbótum.  En á móti hafi mörg mál stoppað í þinginu, bæði vegna andstöðu hjá eigin þingmönnum og að Biden hafi mistekist að fá Repúblíkana með sér. „Og andstaða Repúblíkana hefur verið mjög einörð meðal annars vegna þess að þeir eru hræddir við Trump og hvað hann segir.“

Friðjón segir að embættistíð Bidens verði líklega áfram erfið. Allt bendi til þess að Repúblíkanar nái meirihluta í fulltrúadeildinni í þingkosningunum haust, sem torveldi Biden að koma efnahagsumbótum í gegn. „Það stefnir í, eins og staðan er núna, valdatöku Repúblíkana eftir þrjú ár.“
 

 

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV