Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Íhaldsmenn vilja Johnson úr embætti

19.01.2022 - 08:31
Britain's Prime Minister Boris Johnson gestures during a visit to Finchley Memorial Hospital, in North London, Tuesday, Jan. 18, 2022. (Ian Vogler, Pool Photo via AP)
 Mynd: AP
Hópur þingmanna breska Íhaldsflokksins er byrjaður að safna undirskriftum til þess að knýja fram vantrauststillögu gegn formanninum Boris Johnson. Að sögn Guardian er hópurinn nú að ráða ráðum sínum um hvernig hægt sé að koma honum frá völdum, og hver sé best til þess fallinn að taka við af honum.

Guardian segir hópinn koma víða að úr flokknum. Þeir telja sig geta safnað nægum fjölda undirskrifta þegar rannsóknarnefnd hefur lokið störfum og birt niðurstöður um ásakanir gegn forsætisráðuneytinu um brot á sóttvarnatakmörkunum. Einhverjar heimildir herma að það gæti jafnvel gerst fyrr. 

Haft er eftir þingmanni að þegar séu um tuttugu undirskriftir klárar. Þær hafi ýmist borist hópnum eða þær séu í bígerð. Alls þarf 54 undirskriftir til þess að knýja fram vantrauststillögu.

Johnson mætti í sjónvarpsviðtal í gær þar sem hann hafnaði alfarið fullyrðingum fyrrverandi ráðgjafa hans um að hann hafi vitað af garðveislu á Downingstræti 10 fyrir fram. Enginn hafi varað hann við því að veislan þann 20. maí 2020 stríddi gegn þeim reglum sem stjórn hans lagði á. Um fjörutíu starfsmenn ráðuneytisins mættu til veislunnar, og voru þeir hvattir til að mæta með eigið áfengi. Harðar sóttvarnatakmarkanir voru í gildi á þeim tíma.

Johnson sagðist nokkrum sinnum í viðtalinu ekki útiloka afsögn. Guardian hefur eftir nokkrum þingmönnum að Johnson eigi frekar eftir að víkja úr embætti frekar en að sitja í gegnum vantrauststillögu.