Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

30% félaga í ASÍ og BSRB eiga í fjárhagserfiðleikum

19.01.2022 - 13:29
Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Þrjátíu prósent félagsmanna í BSRB og aðildarfélögum Alþýðusambandsins eiga erfitt með að ná endum saman. Þetta leiða niðurstöður nýrrar könnunar í ljós. Sextíu prósent einstæðra foreldra á vinnumarkaði eiga erfitt með að ná endum saman.

Könnunin var lögð fyrir um 150 þúsund manns í lok nóvember og byrjun desember 2021. Svarhlutfallið 5,8% eða 8.768. Það var í höndum aðildarfélaga ASÍ og BSRB að senda tölvupóst á félaga með hlekk á könnunina. 

Atvinnuleysi meðal innflytjenda í þessum hópi 10,2% en meðal innfæddra 2,8%. Hlutfallslega fleiri konur en karlar eru með laun undir 300 þúsund krónum á mánuði eða rúm 16% launafólks innan aðildarfélaga ASÍ og BSRB. En rétt tæp 7% launafólks í þessum hópi eru karlar.

Fjárhagsstaða fólks eftir fjölskyldustöðu var einnig skoðuð. Í ljós kemur að stærsti hópur þeirra sem eiga mjög erfitt með að ná endum saman eru einstæðar mæður. Tæp 14% einstæðra mæðra eiga erfitt með að ná endum saman. Hjá körlum er stærsti hópurinn hlutfallsega sem á mjög erfitt með að ná endum saman einhleypir, eða 8%. 

Þá er algengara hjá konum en körlum að geta ekki mætt óvæntum útgjöldum og að hafa ekki efni á árlegu fríi með fjölskyldunni.  Af þeim konum sem ekki hafa efni á árlegu fríi með fjölskyldu eru tæp 45% einstæðar mæður en í hópi karla eru tæp 32% einstæðir feður. Í hópi kvenna sem ekki geta mætt óvæntum útgjöldum eru 54% einstæðar mæður og í hópi karla eru 39% einstæðir feður. 

Rúmur helmingur eða 51% einstæðra mæðra telur húsnæðiskostnað vera þunga byrði. Ef hópur einstæðra feðra er skoðaður kemur í ljós að 39% þeirra segir húsnæðiskostnað vera þunga byrði.