Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.

Mánuður í kosningar um sameiningu í Skagafirði

default
Sauðárkrókur með Skagafjörð, Málmey og Drangey í bakgrunni Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Nú er mánuður þar til íbúar í Sveitarfélaginu Skagafirði og Akrahreppi kjósa um sameiningu sveitarfélaganna. Formaður sameiningarnefndarinnar á von á góðri þátttöku í kosningunum.

19. febrúar verður kosið um sameiningu sveitarfélaganna tveggja í Skagafirði. Sveitarfélögin eiga þegar í miklu samstarfi um flesta málaflokka en mestöll þjónustan er þó hjá Sveitarfélaginu Skagafirði. Íbúar þar eru um 4000 en í Akrahreppi eru íbúarnir um 200.

Kröfur til sveitarstjórnarmanna sífellt að aukast

Hrefna Jóhannesdóttir, formaður samstarfsnefndar um sameiningu og oddviti Akrahrepps, segir að kröfurnar til sveitarstjórnarmanna séu sífellt að aukast og verkefnum sveitarfélaga að fjölga. „Ég ég held að það sé nú þannig að flestir sveitarstjórnarmenn vilja að sitt sveitarfélag sé besti nemandinn í bekknum, þegar kemur að því að veita góða þjónustu og tryggja góð búsetuskilyrði. Þannig að auðvitað vill maður reyna að uppfylla sem mest af þessum verkefnum sem okkur eru sett fyrir.“

Á von á metþátttöku í kosningunum í Akrahreppi

Þessi staðreynd og það ákvæði í sveitarstjórnarlögum um að stefnt skuli að því að íbúafjöldi sveitarfélags verði ekki undir 250 við næstu sveitarstjórnarkosningar, hafi orðið til þess að viðræður um sameiningu fóru af stað fyrir alvöru. „Ég veit að þessar kosningar skipta okkur öll mjög miklu máli. Og ég efast ekkert um að kosningaþátttakan í Akrahreppi verður alveg met.“

Ekki spurning um hvort verður sameinað heldur hvenær

Hún segist ekki hitta marga í sínu sveitarfélagi sem séu alfarið á móti sameiningu. Margir segi að auðvitað sameinist sveitarfélögin fyrir rest. Það sé hins vegar spurning hvenær. „Mín tilfinning er sú að fólk sjái þetta sem annað hvort æskilegt, eða óhjákvæmilega þróun, en eru kannski ekki alveg tilbúnir að stíga þetta skref í dag.“